Airbnb: mest auking á Vestfjörðum

Látrabjarg.

Landsbankinn birti í dag sérstakt rit hagdeildar bankans um ferðaþjónustuna 2019. Meginniðurstaða bankans er að þrátt fyrir töluverða fækkun erlendra ferðamanna á árinu 2019 hafi ferðaþjónustan unnið varnarsigur.

Í ritinu er sérstakur kafli um Airbnb og þar kemur fram að samdráttur hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu  um 8,4% í framboði af gistingu miðað við sama tíma í fyrra eftir stöðuga aukningu síðustu ár. Á landsbyggðinni hefur þróunin orðið önnur. Þar er enn vöxtur á svæðum sem liggja hvað lengst frá höfuðborgarsvæðinu segir í ritinu.

Eins og sagt hefur verið frá á Bæjarins besta varð aukningin mest á Vestfjörðum eða 20,2%. Næst kemur Suðurland með 15,1% aukningu, Vesturland 14,3% og Austurland með aukningu upp á 13,1%. Á Norðurlandi eystra varð aukingin 11%. Samdráttur varð á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi vestra.

5,5 milljarða króna tekjur

Samkvæmt útreikningum Landsbankans fjölgaði gistinóttum um 5,4% milli ára, úr 670 þúsund í 706 þúsund fyrstu 7 mánuði ársins. Á fyrstu sjö mánuðum ársins námu heildartekjur á landsbyggðinni tæpum 45 milljónum Bandaríkjadala sem er um 2% samdráttur frá fyrra ári. Í krónum talið jukust tekjurnar hins vegar um 16%, úr 4,7 mö.kr. í 5,5 ma.kr.

Á landinu öllu námu heildarleigutekjur af Airbnb gistingu um 202 milljónum Bandaríkjadala á síðasta ári, eða sem nemur um 12 millörðum króna. Fyrstu 7 mánuði ársins hefur veltan í Bandaríkjadölum dregist saman um 13% milli ára en aukist um 2% í krónum talið.

 

DEILA