61% hærra eigið fé á höfuðborgarsvæðinu

Einstaklingur  á höfuðborgarsvæðinu átti 2018 að meðaltali 35,2 milljóna króna eignir og skuldaði að meðaltali 10,5 milljónir króna. Skuldlaust eigið fé var 24,7 milljónir króna. Fyrir landsbyggðina voru þessar tölur eignir upp á 23 milljónir króna og skuldir 7,7 milljónir króna. Skuldlaus eign einstaklings á landsbyggðinni var 15,3 milljónir króna.

Munurinn er 61% sem einstaklingur átti meiri skuldlausa eign en einstaklingur á landsbyggðinni. Þetta kemur fram í nýjum félagsvísum  Hagstofu Íslands.

 

Mikil hækkur hefur orðið á eignum og skuldlausri eign frá 2010. Á höfuðborgarvæðinu voru tölurnar þá 21,3 milljónir króna í eignum og skuldaði að meðaltali 11,7 milljónir króna. Skuldlaust eigið fé var því 9,6 milljónir króna. Þessi tala hefur hækkað upp í 24,7 milljónir króna á aðeins 8 árum. Mestu munar um hækkun á fasteignaverði, en eigið fé í fasteign er um 80% af eigin fé einstaklingsins að meðaltali. Athyglisvert að skuldirnar að meðaltali hafa lækkað úr 11,7 milljónum króna í 10,5 milljónir króna frá 2010 til 2018.

Á landsbyggðinni hafa eignir hækkað frá 2010 til 2018 úr 15,1 milljón króna upp í 23 milljónir króna og skuldirnar að meðaltali hafa lækkað úr 8,9 milljónum króna í 7,7 milljónir króna.

Dregið hefur í sundur í eignastöðu milli einstaklinga á höfuðbrogarsvæðinu og á landsbyggðinni á þessu árabili 2010 til 2018. Skuldlaus eign einstaklings á höfuðborgarsvæðinu jókst um 15,1 milljón króna en aðeins um 9 milljónir króna á landsbyggðinni að meðaltali. Munurinn er 6 milljónir króna.

Skýringin liggur að stærstum hluta í hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu umfram hækkun þess á landsbyggðinni.

DEILA