24 á biðlista eftir plássi á leikskóla í Skutulsfirði

Á fundi fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar í fyrradag kom fram að leikskólarnir Sólborg og Eyrarskjól hafa nú úthlutað öllum lausum plássum og fyllt það hámarksviðmið sem leikskólalíkan leikskóla Ísafjarðarbæjar segir til um fjölda barna á deild.

Staða biðlista þar sem óskað er eftir leikskólavist í leikskólunum Sólborg og Eyrarskjóli er
þannig að í dag eru 24 börn á aldrinum fjögurra mánaða til tæplega þriggja ára, sem ekki hafa fengið úthlutað leikskólaplássi. Þar af eru 7 börn sem foreldrar hafa óskað eftir seinkun á úthlutun leikskólaplássa til vors/ sumars 2020.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem Guðrún Birgisdóttir skóla- og sérkennslufulltrúi lagði fram.

Yngsta barnið sem boðið verður vistun frá 2. desember 2019 er fætt í október 2018 og verður því rúmlega 13 mánaða þegar það hefur leikskólagöngu sína.

Kynjahlutföll barna á biðlistanum eru 11 stúlkur og 13 drengir.

13 foreldrar hafa sett sem sitt fyrsta val á leikskólavist í leikskólann Sólborg og 11 foreldrar á leikskólann Eyrarskjól.

Fræðslunefndin  áréttaði að börn eru tekin inn á leikskólana eftir aldri en ekki kyni.

DEILA