Vísindaportið. Umhverfis Snorra Sturluson: Þórdís í Vatnsfirði

Í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 28.september mun dr. Úlfar Bragason fjalla um þá mynd sem Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar (1214–1284) gefur af lífshlaupi Þórdísar Snorradóttur í Vatnsfirði, dóttur Snorra Sturlusonar (1179–1241). Þórdís var frillubarn Snorra. Hann gifti hana 1224 bráðunga Þorvaldi Snorrasyni, héraðshöfðingja í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp, miklu eldri manni. Þau áttu tvö börn saman. Þorvaldur hafði staðið í illdeilum við Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri við Arnarfjörð eins og Hrafns saga segir frá. Þorvaldur lét drepa Hrafn og í hefndarskyni brenndu Hrafnssynir hann inni 1228 á Gillastöðum í Króksfirði en Þórdís bjargaðist úr brunanum.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Dr. Úlfar Bragason er prófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknarsvið hans eru íslenskar miðaldabókmenntir og flutningar Íslendinga til Bandaríkjanna á seinnihluta 19. aldar. Meðal rita hans er bókin Ætt og saga: Um frásagnarfræði Sturlungu eða Íslendingasögu hinnar miklu (2010) og Frelsi, menning, framför: Um bréf og greinar Jóns Halldórssonar (2017).

Vísindaportið er opið öllum og fer fram kl. 12:10-13 í kaffistofu Háskólaseturs. Verið velkomin.

DEILA