Tálknafjörður: gagnrýnir ákvæði um lágmarksíbúafjölda

Tálknafjörður Mynd : Mats Wibe Lund.

Hrepspnefnd Tálknafjarðarhrepps gagnrýnir þau áform stjórnvalda að setja 1000 íbúa lágmark í sveitarfélögum. Segir í bókun hrepspnefndar að líta eigi til landfræðilegrar staðsetningar byggðakjarna fremur en íbúafjölda og nefnt er sem dæmi að Reykhólar séu langt frá Vesturbyggð eða Hólmavík og það væri bæði önugt og fjarlægt. Hins væri álitlegt að sameina Ölfus og Hveragerði og það myndi leysa  ýmis vandamál sem eru til staðar en ekki væri gert ráð fyrir því í stefnu stjórnvalda.

Sveitarstjórnin vill fá upplýsingar um sparnað við sameiningu sveitarfélag í fjölkjarna sveitarfélag og hvort það yrði sjálfbært.

Samþykktin í heild:

„Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar um
stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og
aðgerðaráætlun fyrir árin 2019-2023. Einkum og sér í lagi þeim meginmarkmiðum að
þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins og að byggðir og
sveitarfélög um land allt verði sjálfbær, að gefnu að sjálfsögðu að „við mótun
áætlunarinnar verði ávallt gætt að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga“ eins og fram kemur
á blaðsíðu eitt í tillögunni.

Sveitarstjórn Tálknafjarðar hnýtur hins vegar við mælikvarða í kafla 1.1 Sveitarfélög á
Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi.
Ekkert sveitarfélag hafi færri en eitt þúsund íbúa.

Hvers vegna er miðað við fjölda íbúa í stað landfræðilega staðsetningu byggðakjarna.
Augljóslega er önugt og fjarlægt fyrir til dæmis íbúa Reykhóla að sækja yfirstjórn síns
sveitarfélags til Vesturbyggðar eða Hólmavíkur. Ef miðað væri við landfræðilega
staðsetningu byggðakjarna lægi beinast við að sameina með valdi Hveragerði og Ölfus
og öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu myndu sameinast í eitt sveitarfélag með
valdboði. Með því væri komið í veg fyrir margskonar dýr skipulagsmistök og ágreining
sem upp kemur þegar byggðakjarnar liggja svona þétt en lúta mismunandi
sveitarstjórnum. Hugsanlega getur fjöldi íbúa verið grundvöllur skynsamlegra
sameininga, en ekki alltaf.

Liggja þarf fyrir fjárhagslegur útreikningur á sparnaði við sameiningar í fjölkjarna
sveitarfélög og hvort þau verða sjálfkrafa sjálfbær við sameiningu?
Sveitarstjórn Tálknafjarðar óskar eftir staðfestum upplýsingum um að hagur íbúa
sveitarfélagsins muni vænkast við þvingaða sameiningu og þá við hverja?
Skuldaviðmið A-hluta sveitarsjóða verði ekki hærra en sem nemur 100%
Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tekur undir þetta markmið en minnir á að tekjur
sveitarfélaga þurfa að hækka svo þau geti staðið við skuldbindingar sínar. Ekki verður
séð að tekjur sveitarfélaga á íbúa hækki sjálfkrafa við sameiningu.

Hvað varðar samhengi milli 1.000 íbúa viðmiðs og 100% skuldahlutfalls má benda á að
skuldahlutfall Norðurþings sem er landstórt fjölkjarna sameinað sveitarfélag, er 137%
árið 2017. Agnarsmár nágranni Norðurþings er Tjörneshreppur með skuldahlutfallið
16%, fyrir þeim liggur samkvæmt þessari framtíðarsýn að sameinast Norðurþingi og
ekki augljóst hvernig það gagnast íbúum Tjörneshrepps. Sama má segja um
Súðavíkurhrepp með 21% skuldahlutfall árið 2017, þvinguð sameining myndi að öllum
líkindum fella hreppinn undir Ísafjarðarbæ sem er eins og Norðurþing sameinað
fjölkjarnasveitarfélag með 109% skuldahlutfall 2017. Meðaltal skuldahlutfalls
sveitarfélaga með íbúa undir 1.000 er innan við 50% en sveitarfélaga með 1.001 –
15.000 íbúa er tæp 90%.

Lýðræðisleg þátttaka íbúa m.a. mæld í kjörsókn, fjölda íbúafunda, opinna
kynningarfunda, sértækum samráðsverkefnum og skoðanakönnunum, aukist milli
almennra sveitarstjórnarkosninga.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tekur undir að nauðsynlegt sé að fylgjast með
lýðræðislegri þátttöku íbúa en dregur í efa sameining sveitarfélaga á landfræðilega
stóru svæði geti aukið lýðræðislega þátttöku, þvert á móti. Valdalítið eða valdalaus
hverfaráð getur ekki virkjað jafnmarga til starfa og nú starfa fyrir fámenn sveitarfélög.“
Samþykkt samhljóða

DEILA