Súðavík: opinberar stofnanir vilja umhverfismat

Súðavíkurhreppur hefur sent til Skipulagsstofnunar tillögu að deiliskipulagi fyrir hafnarsvæðið innan Langeyrar ásamt umhverfisskýrslu. Deiliskipulagstillagan byggir á endurskoðuðu aðalskipulagi Súðavíkurhrepps 2018 – 2030, sem bíður staðfestingar og felur í sér afmörkun landfyllingar, hafnarkant og verksmiðjubyggingar.

Áætlað er að vinna 120 þúsund rúmmetra á ári af kalkþörungasetri í verksmiðjunni.  Verksmiðjan er ekki  háð mati á umhverfisáhrifum sbr viðauka í lögum þar sem fjallað er um hvað sé umhverfismatsskyld framkvæmd.

Skipulagsstofnun vill umhverfismat

Skipulagsstofnun segir í bréfi dagsett í lok ágúst að ekki sé tímabært að veita umsögn um skipulagstillöguna og umhverfismat hennar en vísar til umsagnar Skipulagsstofnunar um aðalskipulagstillöguna fyrir Súðavíkurhrepp hvað varðar kalkþörungaverksmiðjuna og hafnasvæðið. Þá segir í bréfinu að Skipulagsstofnun muni mögulega koma að ábendingum og athugasemdum síðar þegar stofnunin gefi álit sitt á umhverfismatsskýrslu á kalkþörungaverksmiðjunni. Þetta svar skipulagsstofnunar vekur athygli þar sem eingöngu er verið að umhverfismeta efnistökusvæði kalkþörunga en ekki verksmiðjuna sjálfa.

Svipaður skilningur kemur fram í bréfi Umhverfisstofnunar frá ágúst og virðist vera í bréfi Skipulagsstofnunar sem vísar í lög um náttúrvernd frá 2013 því tli stuðnings. Þá segir í bréfi Umhverfisstofnunar annars vegar að áætlað sé að verksmiðjan vinni 120 þúsund rúmmetra á ári af kalkþörungasetri úr Ísafjarðardjúpi og hins vegar nánast í næstu setningu að mikilvægt sé að fram komi í deiliskipulaginu hversu mikil framleiðsla verður á ári í verksmiðjunni.

DEILA