Sjálfsbjörg Bolungavík 60 ára

Fimm formenn og einn stofnfélagi. Frá vinstri: Ólafía Ósk Runólfsdóttir, Anna Torfadóttir, Björg Kristjánsdóttir, Birna Pálsdóttir, Kristján Karl Júlíusson og Kristín Bjarnadóttir.

Sjálfsbjörg í Bolungavík varð 60 ára í síðustu viku og hélt veglega afmælishátíð á laugardaginn í Félagsheimilinu í Bolungavík. Bergur Þorri Benjamínsson, formaður landssamtakanna Sjálfsbjörg sagði í ræðu sinni að félagið í Bolungavík væri eitt af þeim stóru innan samtakanna og ákaflega virkt. Sagði Bergur að litið væri upp til félagsins innan samtakanna.

Anna Torfadóttir, fyrrverandi formaður var sæmd gullmerki Sjálfsbjargar fyrir störf sín.

Um Önnu sagði Bergur Þorri:  „Anna stýrði félaginu um árabil af miklum skörungsskap. Hún varð formaður félagsins árið 2000 og gegndi því starfi í 12 ár. Anna sat í stjórn landssambandsins á árunum 2008-2015. Anna hefur tekið virkan þátt í nefndarstarfi á vegum samtakanna. Þannig hefur hún lagt fram drjúgan skerf til baráttumálanna. Anna sat í stjórn Sjálfsbjargarheimilisins um sex ára skeið, árin 2012-18 og lagði þar ætíð gott til mála.“

Kristjan Karl Júlíusson, formaður Sjálfsbjargar í Bolungavík kvaðst ánægður með afmælishátíðina, mæting var góð og samkoman í alla staði hin ánægjulegasta.

Hjörtur Traustason flutti tónlistaratriði og  Oliver Rähni lék á piano af mikilli list.

Frá upphafi hafa verið átta formenn í félaginu. Fyrsti formaður var Kristján Karl Júlíusson, afi og alnafni núverandi formanns. Aðrir formenn hafa verið Kristjan Jensson, Björg Kristjánsdóttir, Bragi Björgmundsson, Anna Torfadóttir, Kristín Bjarnadóttir og Ólafía Ósk Runólfsdóttir.

Myndir: Sigríður Línberg Runólfsdóttir.

Afmælistertan var af veglegri gerðinni.
Ísfirðingarnir Magnús Reynir Guðmundsson og Hafsteinn Vilhjálmsson letu sig ekki vanta í afmælishátíðina.
Birna Pálsdóttir stóð að stofnun félagsins og með henni er Ólafía Ósk Runólfsdóttir fyrrverandi formaður félagsins.
Anna Torfadóttir, fyrrverandi formaður tekur á móti viðurkenningum og þakklætisvotti.
Magnús Már Jakobsson var veislustjóri.

 

DEILA