Ófeigsfjarðarvegur: framkvæmdum lauk í gær

Ófeigsfjarðarvegur við Sírá. Jarðvegurinn í vegstæðinu ætti að gróa vel upp strax næsta sumar. Mynd: Vesturverk.

Vesturverk ehf hefur lokið í sumar framkvæmdum við vegabætur á Ófeigsfjarðarvegi frá Eyri í Ingólfsfirði að Hvalá og voru vélar og tæki flutt í burtu í gær. Birna Lárusdóttir, upplýsingarfulltrúi Vesturverks sagði í samtali við Bæjarins besta að miklar rigningar síðustu daga hefðu gert erfitt fyrir. Ný brú yfir Hvalá er komin til landsins og verður sett upp næsta sumar.  Birna segir að framkvæmdir allar hafi gengið samkvæmt áætlun ef frá er talinn kaflinn um Seljanes, sem ákveðið var að bíða með um sinn m.a. vegna andstöðu hluta landeigenda við vegbæturnar.

Í gær birti Samgönguráðuneytið úrskurð sinn í kærumáli frá hluta af eigendahópi Seljaness og staðfesti ráðuneytið rétt Vegagerðarinnar til þess að gera samning við Vesturverk um veghald og rétt til þess að gera umræddar vegabætur. Geta því framkvæmdir haldið áfram þegar tekið verður aftur til við verkið. Að sögn Birnu er eftir að laga veginn þar sem hann liggur um Seljaneslandið og að hluta til í landi Ófeigsfjarðar. Verður það unnið næsta vor, en þá er ráðgert að fram fari rannsóknir á virkjunarsvæðinu.

 

DEILA