Menntastefna Ísafjarðarbæjar

Grunnskólinn á Flateyri.

Ísafjarðarbær hefur gefið úr Menntastefnu Ísafjarðarbæjar, upplýsingar fyrir börn og fullorðna. Þar er fjallað um hlutverk skóla í samvinnu við heimilin sem er að stuðla að alhliða þroska nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.

Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði.

Menntastefnan byggir á fjórum megin stoðum það er, virðing, ábyrgð, metnaður og gleði.

Með virðingunni er átt við að allir eigi rétt á að láta sér líða vel í skólanum, fái að njóta sín sem einstaklingar og takast á við verkefni við hæfi. Jafnframt eru hverjum og einum lagðar þær skyldur á herðar að koma fram af virðingu við nemendur, starfsfólk skóla og aðra þá sem koma að starfi skóla á einn eða annan hátt.
Ábyrgð liggur hjá öllum þeim sem að skólastarfi koma. Leggja skal á það áherslu að hver og einn taki ábyrgð á gjörðum sínum, hegðun og námi í samræmi við þroska.
Metnaður í skólastarfi er mikilvægur og skal ávallt valin besta mögulega leið til framfara. Gæði náms er erfitt að mæla en árangur á samræmdum prófum er þó hægt að hafa til hliðsjónar og skal stefnt að því að grunnskólar sveitarfélagsins séu þar yfir landsmeðaltali.
Gleði á að ríkja í skólastarfinu, því þar sem gleði og virðing ríkja er auðvelt að byggja upp metnað og ábyrgðarkennd.

Miðað skal við fjölbreytta þjónustu þar til börnin verða 18 ára og stefnt sé að því að öll börn frá 1 árs aldri eigi kost á leikskóladvöl.

DEILA