Lögreglufélag Vestfjarða fagnar stjórnsýsluúttekt

Aðalfundur Lögreglufélags Vestfjarða var haldinn á Ísafirði í gær. Samþykkt var ályktun þar sem fagnað er því að stjórnsýsluúttekt muni fara fram á embætti Ríkislögreglustjóra og ennfremur lýst yfir stuðningi við stjórn Landssambands lögreglumanna.

 

Ályktunin í heild:

 

Fundurinn lýsir yfir stuðningi við stjórn Landssambands lögreglumanna (LL) og fagnar að alhliða stjórnsýsluúttekt fari fram á embætti Ríkislögreglustjóra.

 

Félagið ályktaði um óviðunandi stöðu í fata- og ökutækjamálum lögreglunnar þann 27. sept. 2017 og er sú staða óbreytt.

 

Fundurinn ítrekar fyrri ályktanir félagsins og skorar á stjórnvöld að efla og styrkja lögregluna í landinu með auknum fjárheimildum og fjölgun lögreglumanna. Sú staðreynd að lögreglumenn séu enn þann dag í dag einir á vakt er með öllu óviðunandi.

 

Fundurinn vill minna á þverpólitíska skýrslu Innanríkisráðuneytisins um löggæsluþörf, sem gefin var út árið 2014, þar sem kom fram að lögreglumenn á Vestfjörðum skyldu vera 27 árið 2017.  Fjárheimildir í dag leyfa aðeins 21 lögreglumann þrátt fyrir að þörf sé fyrir aukna viðbragðsgetu í umdæminu.

 

Það er skoðun fundarins að sameining allra lögregluembætta í eitt komi ekki til með að styrkja lögregluna í landinu sbr. framkomnar hugmyndir frá embætti Ríkislögreglustjóra.

 

Fundurinn skorar á stjórnvöld að ganga frá kjarasamningi sem gerður var við lögreglumenn haustið 2015. Enn er ekki búið að ganga frá svokallaðri bókun 7 um álagsgreiðslur til lögreglumanna. Samkvæmt samningi átti bókunin að vera afgreidd 10. desember 2015.

 

 

DEILA