Ísafjörður: aukakostnaður við skíðalyftu 4,9 milljónir króna.

Frá skíðasvæði Ísfirðinga. Mynd af facebook.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að hækka fjárveitingu vegna Miðfells lyftu á skíðasvæðinu um tæpar 5 milljónir króna.  Ástæðan er sú að Vinnueftirlitið dæmdi ónýtan vír á lyftunni þannig ekki er hægt að ræsa þá lyftu næsta haust nema skipt verði um vír. Útgjöldunum verður mætt með lækkun á handbæru fé.

Áætlanir ganga eftir í meginatriðum

Á sama fundi var lagt fram minnisblað um skatttekjur og laun frá janúar til júlí 2019. Þar má sjá að útsvarstekjur eru 26,1 m.kr. undir áætlun og eru 1.262,6 m.kr. fyrir tímabilið. Jöfnunarsjóður er 34,9 m.kr. yfir áætlun eða 549,4 m.kr. Að lokum er launakostnaður 15,3 m.kr. undir áætlun en launakostnaðurinn nemur 1.571,1 m.kr. í lok júlí 2019.

Laun eru yfir áætlun hjá Hafnarsjóði um 12,7 milljónir króna eða tæplega 20% og í fræðslumálum er launakostnaðurinn 20 milljónir króna umfram áætlanir sem eru 3%. Helstu liðir sem eru undir áætlun eru í æskulýðs- og íþróttamálum um 9,5 milljónir króna sem jafngildir 7,6% og hjá Byggðasafni Vestfjarða, þar sem launakostnaður er 5,5 milljónir króna undir áætlun eða 38%.

DEILA