Hólmadrangur : Samherji meirihlutaeigandi

Hólmadrangur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjárhagslegri endurskipulagningu rækjuverksmiðjunnar Hólmadrangs ehf á Hólmavík er lokið fyrir nokkru. Snæfell, dótturfyrirtæki Samherja er orðinn eigandi að meirihluta hlutafjár. Kaupfélag Steingrímsfjarðar Hólmavík er einnig eigandi og saman eiga þessir tveir aðilar allt hlutaféð. Viktoría Rán Ólafsdóttir, kaupfélagstjóri er stjórnarformaður Hólmadrangs.  Gestur Geirsson er yfirmaður allrar landvinnslu á vegum Samherja og er hann framkvæmdastjóri en Sigurbjörn Rafn Úlfarsson er rekstrarstjóri verksmiðjunnar. Sigurbjörn  segir að reksturinn gangi vel og búið sé að tryggja hráefni fram til næstu áramóta. Hann segir að nýju eigendurnir séu áhugasamir um rækjuvinnsluna og væntir góðs af nýju hluthöfunum. Sigurbjörn minnir á að Samherji hafi áður verið í rækjuvinnslunni í gegnum Strýtu og hafi nú ákveðið að hasla sér völl að nýju í þessari atvinnugrein. Að sögn Sigurbjörns nýtur Hólmadrangur góðs af sölukerfi Samherja og aðkoma þeirra skapar betri aðstæður til hráefnisöflunar.  Eftir erfiða tíð undanfarin ár í rekstri Hólmadrangs segir Sigurbjörn Rafn Úlfarsson að nú horfi menn bjartsýnir fram á veginn.

DEILA