Héraðsdómur Reykjavíkur: vísar frá dómi kröfu um að ógilda bráðabirgðaleyfi Arctic Fish til laxeldis

Í dag vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur frá dómi kröfu Laxinn lifi félagasamtök, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Akurholts ehf. og Geiteyris ehf., Ara P. Wendel, Víðis Hólm Guðbjartssonar, Atla Árdals Ólafssonar, Varplands hf. og veiðifélags Laxár á Ásum  á hendur Arctic Sea Farm og íslenska ríkinu. Dómkröfur voru að fellt yrði úr gildi bráðabirgðarekstrarleyfi frá 5. nóvember 2018 sem sjávarútvegsráðherra hafði veitt Arctic Sea Farm ehf.

Útgáfa bráðabirgðaleyfisins kom til vegna þess að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hafði fellt rekstrarleyfið úr gildi vegna skorts á athugun annarra valkosta en laxeldis í sjó þegar umhverfismat var gert fyrir laxeldi í Arnarfirði og Tálknafirði. Bráðbirgðaleyfið veitti Arctic Sea Farm og reyndar líka Arnarlaxi rekstrarleyfi meðan unnið var að því að bæta úr meintum vanköntum á umhverfismatinu. Kærendur vildu ekki una því og vildu fella bráðabirgðaleyfið úr gildi og þar með í raun ganga af laxeldinu dauðu.

Niðurstaða Héraðsdóms var að vísa málinu frá. Fram kemur að fyrirtækið fékk rekstrarleyfi 27. ágúst og þá féll bráðabirgðaleyfið úr gildi. Þar með höfðu stefnendur enga lögvarða hagsmuni af því að fá bráðabirgðaleyfið ógilt.

Engu að síður er í niðurstöðukafla dómsins tekin afstaða til rökstuðnings kærenda lið fyrir lið og er þeim öllum hafnað. Þannig segir t.d. að við útgáfu bráðabirgðaleyfis eigi ekki að horfa til efnisskilyrða III. kafla laga um fiskeldi heldur til sérákvæðis 2. mgr. 21. gr. c. Þá er hvorki fallist á að rannsóknarskylda ráðherra, rökstuðningur fyrir ákvörðuninni né andmælaregla geti leitt til þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Ekki er fallist á að ráðherra hafi ekki uppfyllt hæfiskröfur stjórnsýslulaga við meðferð málsins og hafnað er því að lögin sem heimiluðu útgáfu rekstrarleyfi til bráðabirgða hafi brotið í bága við stjórnarskrána.

Þá kom fram hjá dómara við uppkvaðningu dómsins, samkvæmt heimildum Bæjarins besta, að ógildingu bráðabirgðaleyfisins hefði verið hafnað þótt ekki hefði komið til frávísunar.

Sambærilegt má var rekið samhliða gegn Arnarlaxi og var niðurstaða dómsins sú sama í því.

DEILA