Handboltastarf Harðar farið á fullt og spænskur þjálfari ráðinn

Æfingataflan Harðar á Ísafirði er tilbúin. Allir velkomnir á æfingar.  Bragi Rúnar Axelsson segir að engin æfingagjöld séu innheimt, nóg sé um að vera og mikið af gæðaæfingum. Allir flokka taka þátt í Íslandsmóti.

Aðalþjálfari Harðar er Carlos Martin Santos en hann hefur undanfarin ár verið að þjálfa á Spáni og í Serbíu. Carlos er með meistaragráðu í handboltaþjálfun og háskólagráður í íþróttafræði og hreyfifræði. Binda Harðarmenn miklar vonir við hann og byggt verði ofan á það góða starf sem fram fór síðasta vetur.

Meistaraflokkur félagsins tekur þátt í 2. deild karla í vetur og stefnir hátt þar með lið eingöngu byggt á heimamönnum. Fyrsti heimaleikur félagsins er 21. september nk. kl 16 á Torfnesi gegn Fram í 2. deildinni en í hálfleik mun 6. fl. félagsins vera með sýningarleik og að leik loknum verður boðið uppá 100 ára afmælisköku Harðar.

Gamlir og nýir Harðverjar eru boðnir velkomnir en engin aðgangseyrir er. Eina skilyrðið að allir mæti glaðir og hvetji sitt lið.

Þann 17. september nk. er svo dregið í bikarkeppninni en Harðverjar vonast eftir að mæta úrvalsdeildarliði í fyrstu viðureigninni þar.

DEILA