Gallerí úthverfa: Þór Sigurþórsson HEADRESTS 24.8 – 15.9 2019

Laugardaginn 24. ágúst opnaði Þór Sigurþórsson sýninguna HEADRESTS í Gallerí Úthverfu á Ísafirði.  Á sýningunni eru ný verk unnin úr álrörum og höfuðpúðum bílsæta. Aðskilin bílsætinu teygja þau sig til himins eins og á ferðalagi út í óvissuna.

 

Þór Sigurþórsson lauk Mastersnámi við the School of Visual Arts árið 2008 og útskrifaðist frá Myndlista- og Handíðaskóla Íslands árið 2002.  Skúlptúrar Þórs eru oft hlutir sem með frekar látlausri umbreytingu fá nýja merkingu.

 

,,Ég hef í nokkur ár  verið að vinna verk úr tölvuskjám, tekið þá í sundur og notað hluta úr þeim í skúlptúra og myndverk. Svo fann ég skjá sem var innbyggður inn í höfuðpúða, eins og er oft i rútum, og í framhaldinu fór ég gera þessa höfuðpúða-skúlptúra. Ég hef farið í ótal margar ferðir i bílakirkjugarða til að ná mér í púða og einnig pantað eldri og sjaldséðari púða  á netinu, gaman að blanda púðum frá mismunandi tímum saman i skúlptúr. Einnig lita ég stundum púðana. Álrörin eru auðveld að beygja og pússa, en vinnustofan mín er ekki það stór svo að skúlptúrarnir eru stundum fastir inni, komast ekki gegnum hurðina svo ég þarf að setja þá saman á þeim stað sem þeir eru sýndir eins og fyrir þessa sýningu, en þeir hefðu líka aldrei komist inní bílinn.

Þessir skúlptúrar eru líka ekki svo fjarlægir eldri verkum mínum þar sem byggingarefni eins og t.d. álrör teygja sig (vaxa) upp úr derhúfum..

 

Þegar ég er að vinna verk sem felast í því að taka hluti eins og tölvuskjái í sundur og setja þá saman aftur finnst mér það róandi og minna á hugleiðslu (krufningarferlið) og það fær mig til að hugsa um hluti eins og tíma, nýsköpun, framtíðina, tækni, úrgang og mennina að fara framúr sjálfum sér. Undanfarið hef ég verið að gera skúlptúra ​​úr höfuðpúðum úr bílum og hugsa þá um geimferðir og flótta.

Ég sýndi höfuðpúða-skúlptúra fyrr á þessu ári ásamt myndverkum, og fannst mér það renna ágætlega saman, en vildi fyrir þessa sýningu í Gallerí Úthverfu, einungis vera með skúlptúrana, leyfa þeim að njóta vafans, fá alla athyglina. Ég hafði frétt af Gallerí Úthverfu gegnum vini og einnig séð myndir af því á netinu og var nokkuð viss i huga mér að skúlptúrarnir myndu njóta sín vel í því fallega rými.‘‘

 

Sýningin stendur til sunnudagsin 15. September.

Frekari upplýsingar má finna á Instagram: thorsigur

 

 

 

DEILA