Frábær byrjun í körfunni

Mynd: vestri.is

Það var svo sannarlega handagangur í öskjunni í íþróttahúsinu á Torfnesi í fyrrakvöld þegar á annað hundrað manns – börn og fullorðnir mættu á hinn árlega Körfuboltadag Kkd. Vestra. Dagurinn markar jafnan upphaf körfuboltatímabilsins og hefur hann sjaldan verið fjölmennari. Vel yfir 100 börn sprelluðu í salnum undir stjórn þjálfara yngri flokkanna ásamt leikmönnum meistaraflokks karla og stúlknaflokks. Að því loknu var slegið upp pylsuveislu í boði barna- og unglingaráðs og styrktaraðila deildarinnar og hurfu 200 pylsur eins og dögg fyrir sólu.

Æfingar allra hópa eru nú komnar á fullan skrið og undirbúningur hafinn undir mót vetrarins en þau fyrstu er þegar á dagskrá í lok septembermánaðar. Framundan eru foreldrafundir í öllum flokkum og verður byrjað á þeim hópum sem fara fyrstir í mót.

Hér er æfingatafla körfunnar í vetur og eru öll börn á aldrinum 6-18 ára að sjálfsögðu hjartanlega velkomin í körfu. Engin æfingagjöld eru innheimt í 1.-4. bekk og nýir iðkendur í 5. bekk og upp úr fá að spreyta sig gjaldfrjálst í tvo mánuði.

DEILA