Fólki fjölgar alls staðar nema á Vestfjörðum

Selfoss. Í Árborg fjölgaði um 400 manns. Mynd: Mats Wibe Lund.

Þjóðskrá hefur birt tölur um íbúaþróun á íslandi og einstökum sveitarfélögum frá 1. desember 2018 til 1. september 2019. Íbúum landsins fjölgði um 5.127 og þar af voru 3.380 á höfuðborgarsvæðinu. Í einstökum landshlutum fjölgaði einnig alls staðar nema á Vestfjörðum. Þar varð lítils háttar fækkun á þessum níu mánuðum, úr 7.064 í 7.057. Á Norðurlandi vestra (Húnavatnssýslum og Skagafirði) sem hefur verið næst fámennasta svæðið fjölgaði um 109 manns á tímabilinu og eru 7.336 búsettir á svæðinu. Þriðja fámennasta svæðið er Austurland en þar bjuggu um síðustu mánaðamót 10.721 íbúi og fjölgaði um 30. A-Skaftafellssýsla með Höfn sem lengi var talin með Austurlandi er nú reiknuð með Suðurlandi.

Sem fyrr segir varð mest fjölgun á höfuðborgarsvæðinu 3.380 manns sem er 1,5%. Þar á eftir kemur Suðurland með fjölgun upp á 788 íbúa. Suðurnes kemur þar á eftir með fjölgun upp á 601. Séu tölurnar skoðaðar hlutfallslega varð mest fjölgun á Suðurlandi 2,7% á þessu 9 mánaða tímabili og næst mest á Suðurnesjum 2,2%. Á Vesturlandi og Norðurlandi eystra varð fjölgun en lítil 0,3% og 0,6%.

Á þessu tímabili verður mest íbúafjölgun á Suðurnesjum og Suðurlandi sem segja má að eru innan áhrifasvæðis höfuðborgarsvæðisins. Athyglisvert er að þessi áhrif virðast ekki ná í norðurátt séð frá höfuðborgarsvæðinu þar sem aðeins 0,3% fjölgun verður á Vesturlandi.

DEILA