Fjölmenni á fundi Pírata á Þingeyri

Halldóra Mogensen og Björn Leví Gunnarsson, þingmenn Pírata, héldu opinn fund í Simbahöllinni á Þingeyri síðastliðinn miðvikudag. Ólíkt flestum fundum stjórnmálafólks var ekkert um ræðuhöld, heldur var tilgangur fundarins aðallega að heyra sjónarmið gesta til framtíðar Vestfjarða. Fjölmennt var á fundinum og sköpuðust mjög líflegar umræður um jafn ólíka hluti og vinnsluskyldu byggðarkvóta, framboð og eftirspurn menningarviðburða, framtíð sjávarútvegs í súrnandi hafi, þátttökulýðræði á sveitarstjórnarstiginu, sérstaklega í ljósi kröfu um sameiningu sveitarfélaga, borgaralaun og þörfina fyrir betri mælikvarða á velsæld íbúa. Mikill samhljómur var í viðstöddum að efnahagsleg gæði væru nauðsynleg undirstaða lítilla byggðarlaga, en þau væru þó langt frá því að vera nóg. Menntun, menning og félagslíf væru að sama skapi ófrávíkjanleg gæði svo byggð geti dafnað.

Halldóra og Björn Leví tóku einnig þátt í vinnustofu Blábankans og Future Foods Institute á fimmtudaginn. Þar kom saman fólk úr mjög ólíkum starfsstéttum og frá öllum heimshornum og unnu í sameiningu að því að finna leiðir til að skipuleggja megi matvælaframleiðslu framtíðarinnar í sem mestri sátt við umhverfið. Að sögn Halldóru er gríðarlega mikilvægt að nýta svona tækifæri til þess að efla tengsl við þá aðila sem standa fremst í því að tryggja okkur umhverfisvæn og heilnæm matvæli en einnig að reyna að meta hvar tækifæri Íslands liggja í framtíðinni. Ljóst er að skapandi hugsun og nýsköpun munu spila þar veigamesta hlutverkið.

Sumarskólinn á Þingeyri beindi sjónum sínum aðallega að framtíð matvælavinnslu úr hafi, en áður höfðu sambærilegir sumarskólar farið fram í New York og Tokyo með áherslu á matvælavinnslu í borgum og hefðbundinn landbúnað.

 

DEILA