Fjárlagafrv 2020: 600 leiguíbúðir í stað 300

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í dag verða fjárframlög til svokallaðra stofnframlaga til byggingar eða kaupa almennra íbúða 3,7 milljarðar árið 2020 en áður hafði verið ráðgert að dregið yrði úr fjölgun leiguíbúða í almenna íbúðakerfinu.

Stofnframlögin eru notuð til að reisa leiguhúsnæði sem er hugsað til langtímaleigu fyrir fólk sem hefur tekjur og eignir undir ákveðnum mörkum. Upphaflega átti að reisa 300 slíkar íbúðir á næsta ári en nú stendur til að tvöfalda fjöldann og byggja 600 íbúðir með slíkum stofnframlögum. Aukningin er hluti af umsömdu framlagi stjórnvalda til lífskjarasamninga sem gerðir voru síðasta vor.

,,Ég hef lagt mikla áherslu á að húsnæðismál séu velferðarmál og því verður mjög ánægjulegt að fylgja þessari uppbyggingu eftir. Þetta er auk þess einn af þeim þáttum sem lagt var upp með í tengslum við lífskjarasamninga á vinnumarkaði og það er ánægjulegt að þeir séu nú byrjaðir að skila sér í aðgerðum,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

8,5 milljarðar kr í stofnframlög frá 2016

Lög um almennar íbúðir voru samþykkt á Alþingi árið 2016. Frá þeim tíma hefur 8,5 milljörðum kr. verið úthlutað í stofnframlög til tæplega 1.600 íbúða. Heildarfjárfesting í öruggu leiguhúsnæði fyrir almenning, með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga, er talin koma til með að nema á bilinu 60-75 milljörðum króna á árunum 2016 til 2023. Verður því um að ræða einar umfangsmestu húsnæðisframkvæmdir sem efnt hefur verið til með aðkomu stjórnvalda í Íslandssögunni segir í fréttatilkynningu frá Félagsmálaráðuneytinu.

Á meðal þeirra sem reisa íbúðir með stofnframlögunum er Íbúðafélagið Bjarg, sjálfseignarstofnun stofnuð af verkalýðshreyfingunni undir forystu ASÍ og BSRB. Stofnframlögin mynda eins konar eigið fé í þessum óhagnaðardrifnu byggingaverkefnum en ýmsar lánastofnanir fjármagna stærsta hluta framkvæmdanna. Fjölmargir leigutakar, alls 99 talsins, hafa þegar flutt inn í íbúðir Bjargs á höfuðborgarsvæðinu og áætla má, að teknu tilliti til fjölskyldustærðar, að í íbúðunum búi alls um 300 manns. Síðustu fjóra mánuði þessa árs verða 95 íbúðir til viðbótar afhentar leigutökum víða um land sem uppfylla lögbundin skilyrði til þess að leigja slíka íbúð.

Miklar framkvæmdir standa nú yfir á höfuðborgarsvæðinu og er fjöldi íbúða á byggingarstigi. Fæstar þessara íbúða henta þó fyrir eignalítið fólk eða þá einstaklinga sem eru með lágar tekjur. Dæmi um þetta eru námsmenn, ungmenni, aldraðir, öryrkjar og fleiri sem vegna lágra tekna eða félagslegra aðstæðna þurfa öruggt leiguhúsnæði. Leiguverð þessara íbúða er talsvert undir markaðsverði enda njóta þær stofnframlaganna frá ríkinu og viðkomandi sveitarfélagi og mega samkvæmt lögunum ekki vera stærri en þörf er á, né dýrar í byggingu.

DEILA