Erlend verslunarkeðja styrkti andstöðu við laxeldi á Íslandi

Laxeldi í opnum kvíum á Vestfjörðum. Kvíar Arnarlax. Mynd: Lise Rose.

Verslunarkeðjan Patagonia í Kaliforníu studdi grasrótarhreyfingar á Íslandi í andstöðu þeirra við laxeldi með þeim árangri að í nýjum lögum um laxeldi eru auknar takmarkanir á laxeldinu í sjó.

Þetta kemur fram í grein í síðustu viku á heimasíðu Patagonia sem Madalina Preda aðgerðarsinni og  ritstjóri umhverfismála hjá fyrirtækjasamsteypunni skrifar.

Patagonia selur einkum útivistarfatnað og virðist teygja anda sína um allan heim.

Preda segir í greininni að þessi árangur sé skref fram á við til að vernda villtan fisk og búsvæði hans og ógn stafi af áformum laxeldisfyrirtækja um aukið laxeldi í sjó. Fram kemur einnig í greininni að í aðdraganda lagasetningarinnar fyrr á þessu ári hafi NSAF sjóðurinn á Íslandi og Icelandic Wildlife Fund sett þrýsting á Alþingi  með því að fá 30 fyrirtæki til að styðja auglýsingaherferð þeirra. Þar af voru 20 fyrirtæki íslensk. Meðal aðgerða var undirskriftarherferð með áskorun á stjórnvöld gegn því að veitt yrðu fleiri leyfi til sjókvíaeldis.

Rætt er við tvo Íslendinga, Jón Kaldal hjá IWF og Friðleif Guðmundsson frá NASF. Eru þeir mjög gagnrýnir á laxeldið. Segir Jón Kaldal að Ísland sé síðasta víglínan í vörninni fyrir villtum Atlantshafslax og hefur  miklar áhyggjur af því að verið sé að afgreiða ný leyfi sem muni auka framleiðsluna verulega. Afleiðingar verða, að sögn Jóns Kaldal, að villtu laxastofnarnir gætu horfið mjög hratt.

Friðleifur Guðmundsson segir að í Noregi hafi orðið erfðablöndun í öllum laxveiðiám.  vegna smæðar íslensku villtu laxastofnana yrðu afleiðingarnar hörmulegar ef það sama gerðist hér á landi.

Áhættumatið árangur baráttunnar

Um nýju löggjöfina segir Friðleifur að lögfesting áhættumats Hafrannsóknarstofnunar sé ávinningur og minnir hann á að áhættumatið hafi lokað stærsta firðinum á Vestfjörðum fyrir laxeldi og fiskeldisfyrirtækin séu æf yfir því. Friðleifur segir ennfremur að árangur af baráttu þeirra hafi borið þann árangur að í nýju löggjöfinni séu sterkir efnahagslegir hvatar fyrir laxeldi í lokuðum kvíum. „Það er mikill sigur fyrir okkur“, segir Friðleifur.

Jón Kaldal segir af framundan sé barátta gegn því að slakað verið á einstökum ákvæðum laganna. Friðleifur boðar undirskrifasöfnun fyrir harðari umhverfisskilyrði í lögunum. Þá verði unnið að því að fá fólk til að kaupa ekki lax frá fyrirtækjum í sjokvíaeldi  og þrýstingi beitt á einstaka þingmenn.

Lokaorð Friðleifs eru athyglisverð. Þar kallar hann eftir fjárframlögum til stuðnings baráttu samtakanna IWF of NASF „vegna þess að við erum að berjast við milljóna dollara atvinnugrein. Við erum fáein að reyna að hafa áhrif á sama tíma og fyrrverandi forseti Alþingis var ráðinn til starfa fyrir fyrirtækin.“

DEILA