Dynjandi: snyrtingar lokaðar í sumar vegna misskilnings

Svo virðist að misskilningur milli stofnana og Ísafjarðarbæjar sé skýringin á því að snyrtingarnar við Dynjanda voru ekki opnaðar fyrr en í fyrradag. Þeir sem koma að málinu eru Umhverfisstofnun, Rafmagnsveitur ríkisins og Ísafjarðarbær.

Í sumar, þann 16. júlí segir Sigrún Ágústsdóttir sviðsstjóri hjá  Umhverfisstofnun að tafir hafi orðið á þáttum sem varða skipulag og leyfismál sem taki einhverjar vikur að klára.

Það gekki eftir heldur var ekki opnað fyrr en réttum tveimur mánuðum síðan, 16. september. Ólafur A. Jónsson , sviðsstjóri var inntur eftir skýringum og svaraði því til í gær að það hafi þurft að stofna lóðina undir snyrtingarnar og beiðni þar um hefði þurft að koma frá RARIK, sem var eigandi landsins. Töluverð bið var eftir því að þeir sendi beiðni til Ísafjarðarbæjar að sögn Ólafs. „Beiðni um að stofna lóð er nú komin frá RARIK til Ísafjarðarbæjar og Ísafjarðarbær hefur samþykkt að salernin séu opnuð.“

Axel Rodriguez Överby , skipulags- og byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar segir að heimild landeiganda fyrir stofnun lóðarinnar hafi ekki borist fyrr en 4. september og strax hafi verið hægt að afgreiða erindið þar sem lóðin var þegar til á deiliskipulagi.

Axel hafnar því að bæjaryfirvöld hafi komið í veg notkun umræddra salerna, og segir það  „alfarið ákvörðun UST að taka þau ekki í notkun fyrr en undirrituð heimild landeigenda lá fyrir og gengið hefur verið frá skráningum og formlegheitum í sambandi við mannvirkin.“

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik segir að svo virðist að upp hafi komið upp „misskilningur á milli fulltrúa okkar og Skipulags- og byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar. Okkar fulltrúi taldi málið afgreitt af hálfu RARIK eftir samskipti þeirra á milli s.l. haust, en byggingarfulltrúinn taldi sig ekki vera kominn með allt sem hann þurfti til að ljúka málinu. Vegna mistaka af okkar hálfu var ekki haft samband til að fylgja þessu eftir, þannig að málið dróst allt þar til Umhverfisstofnun hafði samband í lok ágúst s.l. og farið var í að ljúka því sem á vantaði.“

 

DEILA