Bolungavík: 70 manns á íbúafundi

Frá íbúafundinum í gærkvöldi. Haraldur L. Haraldsson í ræðustól. Mynd: Helgi Hjálmtýsson.

Vel var mætt á íbúafundi í Bolungavík sem bæjarstjórnin boðaði til í gærkvöldi. Haraldur L. Haraldsson, fyrrverandi bæjarstjóri og núverandi ráðgjafi kynnti  ítarlega úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum Bolungarvíkurkaupstaðar ásamt tillögum.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri  sagði að ástæðan fyrir því að úttektin var gerð hafi ekki verið sú að staðan væri slæm heldur sýndi úttektin þvert á móti að staðan er góð hjá sveitarfélaginu. Markmiðið með úttektinni hafi verið að láta fara vandlega í gegnum reksturinn og fá fram ábendingar og tillögur um það sem gera megi betur í rekstrinum. Jón Páll sagði það þyrfti að gera reglulega og að hans mati á tíu ára fresti eða svo. Það væri ekki ætlunin að hrinda breytingum í framkvæmd með uppsögnum heldur myndu bæjarfulltrúar nú taka skýrsluna og tillögurnar til skoðunar og ef til vill yrðu í framhaldinu teknar ákvarðanir um breytingar. Það tæki tíma að hrinda þeim í framkvæmd og hjá sveitarfélaginu væri töluverð starfsmannavelta.

Mismunandi tekjur af fasteignaskatti

Eitt að því sem fram kemur í skýrslu Haraldar L. Haraldssonar er að tekjur Bolungavíkurkaupstaðar af fasteignaskatti eru nærri helmingi minni en tekjur Seyðisfjarðarkaupstaðar og almennt eru teljur Bolungavíkur af fasteignaskatti með því lægsta á landinu.

Bolungavík fær 54 þúsund krónur pr íbúa í tekjur af fasteignaskatti árið 2017 og fær frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sömu fjárhæð 54 þúsund krónur til jöfnunar tekna af fasteignaskatti til að vega upp mismunandi fasteignamat. Samtals fær kaupstaðurinn 108 þúsund krónur pr. íbúa. Seyðisfjarðarkaupstaður fær 103 þúsund krónur pr íbúa í tekjur af álögðum fasteignaskatti og að auki 96 þúsund krónur pr íbúa frá Jöfnunarsjóði. Samtals fær Seyðisfjarðarkaupstaður 200 þúsund krónur pr íbúa.

Hér er ólíku saman að jafna og það vakna spurningar um það hvert hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er þegar framlag sjóðsins jafnar ekki heldur eykur ójöfnuð milli sveitarfélaga.

Glæra úr skýrslu Haraldar l. Haraldssonar.
DEILA