Afkoma sjávarútvegsins 2018: 53 milljarðar króna framlegð

Grindavík er aflaheimildamesta höfnin. Mynd: grindavik.is

Deloitte hefur birt samantekt sína um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja á síðasta ári. Í gagnagrunni Deloitte eru félög sem eru með 92% af öllu úthlutuðu aflamarki.

Afkoman á síðasta ári batnaði frá fyrra ári. Tekjur sjávarútvegsins voru  247 milljarðar króna og jukust um 22 milljarða króna frá 2017. Framlegðin eða Ebitda  varð 53 milljarðar króna sem gerir 22% af tekjum. Frá 2009 hefur framlegðin verið frá 18% upp í 31% af tekjum og er síðasta ár það næstlægsta á þessu 10 ára tímabili.

Afkoman var best hjá blönduðum uppsjávar- og botnfiskfélögum en þar var framlegðin 24% en 19% hjá botnfiskvinnslu- og útgerð.

Samkvæmt úttekt Deloitte varð hagnaðurinn 27 milljarðar króna, sem er það sama og árið áður.

Arðgreiðslur 2018 voru 12,3 milljarðar króna sem eru 31% af framlegðinni. Er það hæsta hlutfall framlegðar frá 2011 sem hefur verið greitt út í arð. Árin 2011 og 2012 var innan við 10% af framlegðinni greitt í arð.

DEILA