West Seafood: höfum ekki brotið neinn samning

Karl Brynjólfsson stjórnandi hjá West Seafood ehf hafnar því að fyrirtækið hafi brotið samninginn um aukna byggðafestu á Flateyri eins og fram kemur í bréfi Byggðastofnunar til aðlia samningsins.

Karl segir að greiðslur til Hlunna ehf hafi verið dregnar en greitt hafi verið inn á skuldina að undanförnu og hún sé lítil núna. Karl segir ennfremur að Hlunnum ehf hafi verið greitt hærra verð fyrir fiskinn en áskilið er í samningnum. Þar sé kveðið á um að greiða Verðlagsstofuverð sem hafi verið 170 kr/kg en West Seafood ehf hafi greitt 220 kr/kg.

„Málið er í höndum lögmanns okkar Karls Georgs“ segir Karl Brynjólfsson um samningsriftun Byggðastofnunar.

Höldum áfram okkar striki 

Riftun Byggðastofnunar á samningnum um aukna byggðafestu á Flateyri breytir ekki áformum fyrirtækisins um endurskipulagningu West Seafood ehf að sögn Karls. Nýir aðilar munu koma inn í eigendahópinn og að rekstrinum. Kvóti Byggðastofnunar hafi aðeins verið um 200 tonn til þessa en West Seafood hefur sjálft leigt til sín 600 tonn af kvóta og hefur unnið miklu meira af fiski en áskilið er í samningnum segir Karl. Starfsfólk fyrirtækisins mun koma til vinnu um miðjan ágúst.

DEILA