Hvalárvirkjun, staðreyndir og álitamál

Formaður bæjarráðs Ísafjarðar og Fjórðungssambands Vestfirðinga skrifar 19. júlí í BB að staðreyndir skipti suma engu máli í umræðum um áformaða Hvalárvirkjun sem geri það að verkum að erfitt sé að ræða málið af einhverri skynsemi.

Landvernd byggir neikvæða afstöðu sína til Hvalárvirkjunar á fjölmörgum staðreyndum málsins, eins og fram kemur hér á eftir.

Lög um rammaáætlun voru brotin

Formaðurinn segir að Hvalárvirkjun hafi farið í gegnum það nálarauga sem rammaáætlun er.

Lög tilgreina að við flokkun virkjunarkosta skuli tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag.

Þó virkjanatillögur falli í nýtingaflokk Rammaáætlunar felst engin heimild til orkunýtingar í því. Sú flokkun merkir það eitt að viðkomandi virkjanakosti má skoða til nýtingar en þeir eru alltaf háðir umhverfismati og í lögunum er sjónarmiðum umhverfis- og náttúruverndar gert hátt undir höfði á öllum stigum.

Í lögum segir að í biðflokk Rammaáætlunar skuli falla virkjunarkostir, sem talið er að afla þurfi frekari upplýsinga um, svo meta megi hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Þá segir einnig að byggja skuli á faglegu mati á upplýsingum sem fyrir liggja, samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum og að vinna faghópa skuli lögð til grundvallar matinu.

 

Tveir faghópar Rammaáætlunar (nr. 2 frá 2011) af fjórum töldu Hvalárvirkjun ekki uppfylla skilyrði um gæði gagna og tveir faghópar gáfu henni slæma einkun bæði hvað varðar hagkvæmni og jákvæð áhrif á samfélag. Þrátt fyrir þetta féll virkjunin í nýtingaflokk og var samþykkt sem slík í þingsályktun.

 

Þingsályktun er ekki hafin yfir lög. Í þessu ljósi telur Landvernd að við flokkun hafi Hvalárvirkjunar ekki farið um nálarhauga heldur öllu frekar farið á fölskum forsendum inn í nýtingarflokk og sú ákvörðun sé í trássi við lög.

 

Niðurstaða umhverfismat virt að vettugi

Formaðurinn segir að Hvalárvirkjun hafi þurft að fara í gegnum ótrúlegustu hindranir.

Hvorki lög um mat á umhverfisáhrifum né náttúruverndarlög hindruðu framgang málsins. Við mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar komu afar neikvæð áhrif fram og jákvæð áhrif á samfélag til lengri tíma voru metin lítil sem engin. Hvorki sveitarfélag né virkjunaraðili virðast hafa tekið þessa niðurstöðu alvarlega. Sömu aðilar virtu ákvæði í náttúruverndarlögum að vettugi.

 

Sjálfskapaðar hindranir

Helstu hindranir hafa verið þær sem sveitarfélagið og framkvæmdaaðili hafa sjálfir skapað með því ekki að fara að settum reglum um skipulagsmál.

 

En fleiri sjálfskapaðar hindranir eru að koma fram. Unnið hefur verið með ófullnægjandi gögn um landamerki og þar með eru samningar um vatnsréttindi í uppnámi. Það getur tekið mörg ár að fá úr þessum málið skorið. Vatnsréttindi hafa afgerandi áhrif á arðsemi vatnsaflsvirkjana.

 

Eignarhald á vegi virðist einnig ekki vera að fullu upplýst og gæti stöðvað þær vegaframkvæmdir sem hafnar eru.

 

Meintur orkuskortur

Formaðurinn segir að framunda sé orkuskortur og því sé þörf á Hvalárvirkjun og vísar í nýleg gögn þar um.

Landvernd telur að stjórnvöld hafi alla möguleika á að koma í veg fyrir orkuskort til almennings en gerir sér grein fyrir því að aldrei verður mögulegt að fullnægja þörf fyrir ódýra raforku til stórnotenda sem hafa skammtímahagnað að leiðarljósi.

 

Frá 2011 til 2018 jókst raforkuframleiðsla á Íslandi úr 16,8 í 19, 8 teravattstundir, eða um tæplega 18 %. Á sama tíma fjölgaði íbúum um tæplega 12 %. Fram hafa komið fréttir frá fleiri orkuframleiðendum um að þeir geti aukið nýtni núverandi orkuvera á næstu árum m.a. vegna endurnýjunar tækja og breyttu vatnafari vegna bráðnunar jökla. Landsnet hefur upplýst á fundi að umtalsvert afl á Norðvesturlandi sé vannýtt. Fleiri virkjunarkostir í nýtingaflokki hafa enn ekki verið fullkannaðir. Áform um smávirkjanir og vindmillugarða spretta upp hér og hvar um landið. Allt tal um að Hvalaárvirkjun sé nauðsynleg fyrir orkuöryggi landsins er því afar hæpið, svo ekki sé vægar til orða tekið. Þau 8 megavött sem ráðgert er að þurfi fyrir hugsanlegri Kalkþörungaverksmiðju í Súðavík má því sem næst örugglega útvega án Hvalárvirkjunar.

 

Áhrif á orkuöryggi lítið sem ekkert

Formaðurinn segir að skýrslur Landsnets upplýsi að Hvalárvirkjun mun hafa jákvæð áhrif á afhendingaröryggið fyrir rafmagn um alla Vestfirði. Landvernd, eftir að hafa kynnt sér málsgögn, dregur þetta í efa.

 

Landsnet hefur með nýjustu framkvæmdaáætlun boðað nýjan afhendingarstað í Djúpinu með tengingu yfir í Kollafjörð. Þetta yrðir móttökustaður fyrir orku frá virkjunum á Ófeigsfjarðarheiði. Þetta er þó aðeins sagan hálf. Ekki kemur fram hvernig og með hvaða kostnaði á að tengja sjálfa Hvalárvirkjun um veðurbarðar og jarðvegslitlar heiðar. Um forsendur lögbundinnar hagkvæmni línutenginga er því enn allt á huldu.

Þess bera að geta hringtenginu um Djúp sem Vestfirðingar hafa kallað eftir er hvergi að finna í framkvæmdaáætlun.

Samkvæmt upplýsingum sem Landvernd hefur aflað frá Landsneti varð rafmagnsleysi á Vestfjörðum á árinu 2018 allt til komið vegna bilana vestan við Kollafjörð. Í því ljósi er erfitt að skilja hvernig umrædd framkvæmd á að bæta rafmagnsöryggi á Vestfjörðum svo einhverju skipti. Í umræðu undanfarið hafa komið fram hugmyndir um fjölmargar hagkvæmari leiðir til að ná  markmiði um orkuöryggi fyrir íbúa á Vestfjörðum.

Dagslok og staðreyndir

Formaðurinn segir að í lok dags séu það staðreyndir í málinu sem hún kýs að taka mark á. Mér er það bæði ljúft og skyld að koma til Ísafjarðar til að ræða framangreindar og aðrar staðreyndir málsins, en einnig álitmál, við formann Fjórðungssambands Vestfirðinga. Vonandi boðar hún til þess fundar.

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar

 

DEILA