Tíðarandi í teikningum- Sýning í Safnahúsinu á Ísafirði

Í sumar hefur staðið yfir sýning í Safnahúsinu á Ísafirði sem nefnist Tíðarandi í teikningum. Á sýningunni eru frumrit myndverka sem listamenn hafa unnið fyrir íslenskar námsbækur allt frá því fyrir stofnun lýðveldisins. Frumritin hafa ekki komið fyrir sjónir almennings áður þó kynslóðir þekki efnið úr námsbókum undanfarinna áratuga. Myndirnar eru úr námsbókum sem gefnar voru út af Ríkisútgáfu námsbóka og Námsgagnastofnun og eru nú í eigu Menntamálastofnunar. Myndirnar bera vitni um þann metnað sem lagður hefur verið í myndskreytingar námsbóka, þar sem færustu myndlistarmenn leggja hönd á plóg. Teikningarnar eru unnar innan þess ramma sem námsbókum eru settar og endurspegla jafnframt menningarlegan og þjóðfélagslegan anda sinnar tíðar. Hönnuður sýningarinnar er Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir. Sýningin er opin á opnunartíma Safnahússins, virka daga frá 12-18 og 13-16 á laugardögum en næstkomandi laugardag er síðasti sýningardagur.

DEILA