Þingeyrarflugvöllur: tækja og sandgeymsla flutt til Bíldudals

Þingeyrarflugvöllur. Mynd: visir.is

Tækja- og sandgeymsla á flugvellinum á Þingeyri verður flutt til Bíldudalsflugvallar í sparnaðarskyni. Þetta kemur fram í svari Arnórs Magnússonar, ISAVIA til Ísafjarðarbæjar.

Á íbúaþingi á Þingeyri í mars í fyrra var meðal annars kallað eftir því  að eytt yrði þeirri óvissu sem ríkti um framtíð Þingeyrarflugvallar, sem fram til þessa hefur verið varaflugvöllur fyrir Ísafjörð. Í svörum ISAVIA segir að frá 2007 þegar Þingeyrarflugvöllur var gerður upp hafi  fram til 2013 að jafnaði verið 15 lendingar á ári á Þingeyri af þeim ca. 100 ferðum sem féllu niður á Ísafirði v/veðurs eða um 15% nýting. Þá gerðist það í mars 2013 að slitlagið brotnaði undan þunga flugvéla sem lent höfðu á vellinum og í framhaldinu var honum lokað, nema frá 1. júní til 15. október. Síðast lenti flugvél frá Flugfélaginu árið 2015.

Þá kemur fram í svörum ISAVIA að lausleg kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir um 300-400 milljónum króna í endurbætur á vellinum auk 30-35 milljóna króna  árlegum rekstrarkostnaði fyrir utan tækjakaup og endurnýjun á veðurkerfi sem er ónýtt.

Árið 2016 var völlurinn skilgreindur sem malarvöllur, menn frá Air Iceland Connect skoðuðu brautina og töldu hana ekki nothæfa fyrir þeirra vélar.

Þau tæki sem fyrir voru á Þingeyri var vörubíll 1981 orðinn lélegur, slökkvibíll sem var fluttur til Húsavíkur og dráttarvél sem fór til Bíldudals.

Ráðuneytið hefur samþykkt flutning á tækja og sandgeymslu frá Þingeyri til Bíldudals til lækkunar á rekstrarkostnaði þar, í dag er samningur við verktaka á Bíldudal um leigu á sandgeymslu og þjónustu við sandburð á brautinni.

Þá segir Arnór Magnússon að Isavia hafi ekki fjármagn nema til reksturs flugvallanna og að  allar framkvæmdir, tækjakaup ofl. séu háðar aukaframlagi ríkisins. „Ísafjarðarflugvöllur var tekinn í notkun 1960, ekki hefur enn fengist fjármagn til að malbika bílastæðið en það var teiknað 2008 með lýsingu og niðurföllum, síðan er tvisvar búið að uppfæra það en áfram ökum við af slitlagi Vegagerðarinnar inn á malarbílastæði með tilheyrandi pollum ofl.“

Svarinu lýkur með þeim orðum að ekki séu líkur á að farið í framkvæmdir við Þingeyrarflugvöll að óbreyttu.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar kallar eftir formlegri afstöðu Isavia varðandi framtíð flugvallarins á Þingeyri.

 

DEILA