Tálknafjörður: tekið upp tvöfalt fjallskilagjald 2020

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hefur samþykkt tillögur frá sameiginlegri fjallskilanefnd vesturbyggðar og Tálknafjarðar um upptöku á gjaldi fyrir fjallskil. Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri segir að gjaldið verið innheimt frá og með næsta ári. Bæjarstj+orn Vesturbyggðar á eftir að taka málið fyrir.

Fjallskilanefndin samþykkti þann 14. ágúst að  leggja til að „heimilt verði að leggja allt að 2% á landverð allra jarða í Vesturbyggð og Tálknafjarðahrepp, þar með talið eyðijarðir, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda miðað við gildandi fasteignamat á hverjum tíma, í samræmi við fjallskilasamþykkt fyrir Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslur nr. 716/2012, sem innheimt verði samhliða fasteignagjöldum 2020. Nefndin leggur einnig til að á árinu 2020 verði lagt á fjallskilaskylt búfé í sveitarfélögunum gjald sem nemur 300 kr. á hverja sauðkind skv. skráningu Matvælastofnunar sem renna skal í fjallskilasjóð. “

Ekki var alger eining um tillögurnar innan sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps og Lilja Magnúsdóttir hafnaði 2% tillögunni og taldi ósanngjarnt að landeigendur sem ekki væru með sauðfé greiddu gjald vegna lausagöngu sauðfjár og lét bóka að:

„Með því að leggja gjald á landverð jarða sem ekki stunda sauðfjárbúskap er verið að mismuna atvinnurekstri með því að leggja gjald á óskyldan rekstur til að hygla sauðfjárbúskap. Eðlilegast er að sauðfjárbændur greiði sjálfir allan kostnað sem hlýst af lausagöngu sauðfjár en kostnaðinum sé ekki velt yfir á nágranna þeirra sem margir hverjir eru á móti lausagöngu búfjár og vilja hana ekki í sinni landareign. Tillögu um álögur á landverð jarða í Tálknafjarðarhreppi er alfarið hafnað en lýst yfir stuðningi við tillögu um álagningu fjallskilagjalda á sauðfé til að standa straum af kostnaði við fjallskil.“

Þrír aðrir sveitarstjórnarmenn tóku undir sjónarmið Lilju en ákváðu samt að samþykkja gjaldið.

DEILA