Strandabyggð: Nýr oddviti – vantar varamenn

Nýr oddviti var kosinn í sveitarstjórn Strandabyggðar á fundi í vikunni. Jón Gísli Jónsson var kosinn í stað Ingibjargar Benediktsdóttir sem er að flytja úr sveitarfélaginu. Hlaut Jón Gísli þrjú atkvæði en tveir hreppsnefndarmenn, Guðfinna Lára Hávarðardóttir og Aðalbjörg Sigurvaldadóttir sátu hjá.

Aðalbjörg Signý tók til máls og undirstrikaði þá skoðun sína að oddviti yrði að vera virkur í málefnum sveitarfélagins útávið, sérstaklega í ljósi umræðu um sameiningar sveitarfélaga segir í fundargerð sveitarstjórnarinnar.

Miklar mannabreytingar hafa orðið í sveitarstjórninni frá kosningunum í fyrra. Tveir aðamenn hafa fengið lausn frá störfum, auk Ingibjargar er það Eiríkur Valdimarsson sem er hættur. Þá fékk annar þeirra varamanna sem gekk upp í sveitarstjórnina leyfi frá störfum á fundinum um óákveðin tíma vegna veikinda. Hinn varamaðurinn hefur líka fengið lausn frá störfum. Varamaður sem hafði fengið leyfi, Ásta Þórisdóttir sneri aftur og tók sæti sem aðalmaður og inn kom sem nýr aðalmaður Jón Jónsson, sem hefur reyndar áður setið í sveitarstjórninni. Einn varamaðurinn til er fluttur burt.

Það sem kosningar voru óhlutbundnar voru aðeins kosnir fimm aðalmenn og fimm varamenn. Er staðan nú þannig að tveir af þessum tíu eru fluttir og þrír eru með leyfi. Þá eru bara eftir fimm, sem er nákvæmlega fjöldi sveitarstjórnarmanna í Strandabyggð. Virðist því svo að það vanti varamenn um þessar mundir. Ef hefðu verið listakosningar væri úr stærri hópi að velja, til dæmis væri hópurinn 20 manns ef tveir listar hefðu komið fram.

DEILA