Strandabyggð: fjármál sveitarstjóra hafa ekki áhrif á stöðu hans

Sveitarstjórn Strandabyggðar bókaði á síðasta fundi sveitarstjórnar að það „hafi engin sérstök áhrif á ráðningarsamband sveitarstjórnar og sveitarstjóra, þótt fyrirtæki í eigu þess aðila sem fer með starf sveitarstjóra hverju sinni sé tekið til gjaldþrotaskipta meðan hann sinnir starfi sveitarstjóra.“

Tilefni bókunarinnar voru spurningar sem fyrrverandi sveitarstjóri Andrea Kr. Jónsdóttir sendi 10. júlí til sveitarstjórnarinnar þar sem hún spurði um áhrif vanskilaskulda sveitarstjóra a starf hans.

Spurningar Andreu voru svohljóðandi:

1.  Gerir sveitarstjórn þá kröfu til þess einstaklings sem sinnir starfi sveitarstjóra á hverjum tíma, að viðkomandi sé með hreina vanskilaskrá?

2. Ef sú staða kemur upp að í ljós kemur að sá einstaklingur sem sinnir starfi sveitarstjóra sé með skráningar í vanskilaskrá CreditInfo, hvernig mun sveitarstjórn bregðast við?

3. Hefur það áhrif á ráðningarsamband sveitarstjórnar og sveitarstjóra ef fyrirtæki í eigu þess aðila sem fer með starf sveitarstjóra, er tekið til gjaldþrotaskipta meðan hann sinnir starfi sveitarstjóra?

Bókun sveitarstjórnar

Í bókun sveitarstjórnar segir að það hafi engin sérstök áhrif þótt fyrirtæki í eigu sveitarstjóra sé tekið til gjaldþrotaskipta en almennt þurfi að meta aðstæður hverju sinni.

„Sveitarstjórn hefur ekki aðgang að upplýsingum í vanskilaskrá og gerir því ekki kröfu um að engar skráningar finnist þar. Sveitarstjórn telur hins vegar nauðsynlegt að sveitarstjóri hverju sinni sé fjár síns ráðandi, þ.e. hafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota persónulega, og geti verið prókúruhafi sveitarfélagsins. Það hefur engin sérstök áhrif á ráðningarsamband sveitarstjórnar og sveitarstjóra, þótt fyrirtæki í eigu þess aðila sem fer með starf sveitarstjóra hverju sinni sé tekið til gjaldþrotaskipta meðan hann sinnir starfi sveitarstjóra. Almennt séð eru spurningar sem varða viðbrögð við hugsanlegum persónulegum áföllum og fjárhagsstöðu starfsmanna sveitarfélagsins erfiðar viðfangs. Meta þarf aðstæður hverju sinni, ef um slíkt er að ræða.“

Engin áhrif

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri staðfesti í samtali við Bæjarins besta að fyrirtæki, sem hann hefði átt hlut hefði orðið gjaldþrota, en það hefði engin áhrif á stöðu hans sem sveitarstjóra og bókun sveitarstjórnar hefði staðfest það. Gjaldþrotið væri afleiðing af bankahruninu 2008.

Hann setti hins vegar spurningarmerki við heimild Andreu til þess að afla persónuupplýsinga af þessu tagi og taldi það vafamál að slíkt væri heimilt lögum samkvæmt.

Andrea var innt eftir því hvort hún hefði upplýsingar um persónuleg fjármál sveitarstjórans og svaraði hún því til að hún „sem einstaklingur get ekki kannað það en sveitarstjórn getur spurt eða kannað málið. Ég held að það sé réttast að beina spurningum þangað.“ Ekki kom fram hjá Andreu, í ljósi þess svars að hún hefði ekki aðgang að upplýsingunum,  hvers vegna hún sendi fyrirspurnirnar til sveitarstjórnar.

DEILA