Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar auglýstar til sölu

Ferðaþjónustufyrirtækið Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar hefur verið auglýst til sölu. Fyrirtækið sem hjónin Hafsteinn Ingólfsson og Guðrún Kristjana Kristjánsdóttir stofnuðu fyrir þremur áratugum sinnir farþegaflutningum um Ísafjarðardjúp og norður á Hornstrandir. Fyrirtækið á þrjá farþegabáta, Ingólf 30 farþega, Blika 38 farþega og Guðrúnu sem tekur 48 farþega. Þá á fyrirtækið þjónustuhús við Sundahöfn á Ísafirði og flotbryggju við Hesteyri í Jökulfjörðum. Þau Hafsteinn og Kiddý hafa byggt upp öflugt fyrirtæki í ferðaþjónustu á liðnum árum með mikilli elju og umhyggju. Aðalsmerki fyrirtækisins hefur verið að öll þjónusta og aðstaða í bátunum er til fyrirmyndar.
Í auglýsingu frá fasteignasölunni Valhöll segir að auk almennra farþegaflutninga hafi fyrirtækið sinnt þjónustu við farþega skemmtiferðaskipa sem koma til Ísafjarðar með samningi við Vesturferðir um ferðir til Hesteyrar og í Vigur. „Um 80-90 skemmtiferðaskip koma til Ísafjarðar hvert sumar og er um að ræða mjög ábatasaman rekstur,“ segir í auglýsingunni.

DEILA