Seðlabankastjóri : greiðslumiðlun færist til útlanda

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hélt opinn kynningarfund í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði á mánudagskvöld þar sem hann fór yfir markmið, árangur og áskoranir til framtíðar í starfi Seðlabanka Íslands. Seðlabankastjóri gerði grein fyrir helstu markmiðum og verkefnum Seðlabankans, svo sem þeim að stuðla að stöðugleika í verðlagi og að fjármálastöðugleika. Þá greindi seðlabankastjóri frá árangri við úrlausn fjármálakreppunnar 2008 en þar kom fram að endurreisn bankakerfisins hefði tekist vel; stærð þess væri nú vel viðráðanleg og lykil rekstrarstærðir á jákvæðum nótum. Þá hefði viðnámsþróttur efnahagslífsins stóraukist eins og sjá mætti á stórbættri eignastöðu þjóðarbúsins, auknum gjaldeyrisforða landsmanna og minnkandi skuldum heimila og fyrirtælkja. Peningastefnan hefði verið endurbætt með sveigjanlegra verðbólgumarkmiði, stýrðu flotgengi og fleiri tækjum, svo sem auknum gjaldeyrisinngripum og aðgengi að fjárstreymistæki. Þá hefði samspil við ríkisfjármál verið aukið með fjármálareglum og varúð aukin með áherslu á þjóðhagsvarúð.

Stöðugleiki, lágir vextir og viðskiptajöfnuður í sex ár

Fram kom hjá seðlabankastjóra að peningastefnan hefði náð að halda verðbólgu nálægt tveggja og hálfs prósents markmiði í bráðum sex ár, viðskiptajöfnuður hefði stórbatnað og aukinn stöðugleiki komist á fjármagnsflæði milli landa, vextir væru nú í sögulegu lágmarki og stöðugleiki fjármálakerfisins almennt meiri en áður hefði verið.

Greiðslumiðlun færist úr landi

Í umræðum um áskoranir til framtíðar nefndi seðlabankastjóri fáein atriði og staldraði nokkuð við þá staðreynt að æ stærri hluti greiðslumiðlunar færðist undan áhrifum hérlendra aðila sem gæti valdið hættu þar sem stjórnvöld gætu þá síður gripið inn í ef hætta steðjaði að.

 

Fundurinn var hinn fyrsti í fjögurra funda röð Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra um landið.

DEILA