Óumdeildar vegabætur í Árneshreppi

Borgarverk vinnur að vegabótum í Norðurfirði.

Í botni Norðurfjarðar í Árneshreppi er nú unnið að lagfæringum á þjóðvegi 643, Strandavegi. Lítið hefur farið fyrir fréttum af þessari framkvæmd, enda engar deilur um þessa vegabót. Vegurinn inn í Norðurfjörð undir Urðarfjalli hefur legið yfir svokallaða Litlu-Kleif, blindhæð sem hefur verið farartálmi á vetrum. Í vor lét Vegagerðin bjóða út færslu á veginum niður með fjörunni í tæpan hálfan kílómetra. Samið var við Borgarverk ehf. í Borgarnesi um verkið og vinna er nú í fullum gangi og von til þess að nýr vegarspotti inn í Norðurfjörð verði tilbúinn eftir fáeinar vikur.

Þessi litla vegabót minnir á að langt er í land með að íbúar í Árneshreppi búi við vegasamgöngur sem tilheyra 21. öld. Nýlegur vegur um Bassastaðaháls úr Steingrímsfirði yfir í Bjarnarfjörð og ný brú á Bjarnarfjarðará var tekinn í notkun í fyrra og er nú fullfrágenginn með nýju slitlagi, sem nær að Laugahóli, þar sem starfrækt er hótel og veitingahús. Þaðan eru rúmir þrjátíu kílómetra leið í Djúpuvík og þaðan um fjörutíu í Norðurfjörð, allt á gömlum malarvegi. Nauðsyn bættra samgangna í Árneshrepp er óumdeild, en efndir standa á sér.

Unnið að vegarbótum í Norðurfirði.
DEILA