Ólafur Ragnar í stjórn Kerecis

Ólafur Ragnar Grímsson fyrrv. forseti Íslands.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur hlotið kjör í stjórn Kerecis. Ólafur hefur í gegnum tíðina setið í fjölmörgum stjórnum innlendra- og erlendra félagasamtaka, en með stjórnarsetu sinni í Kerecis sest hann í fyrsta skipti í stjórn fyrirtækis. Ólafur Ragnar var forseti lýðveldisins á árunum 1996 til 2016 og hefur frá því að hann lét af störfum m.a. stýrt hinu árlega Arctic Circle-þingi, sem fjallar um sjálfbæra framtíð Norðurskautsins. 

Kerecis er frumkvöðull í notkun á roði og fjölómettuðum fitusýrum til að meðhöndla sár og vefjaskaða og eru vörur fyrirtækisins sem framleiddar eru hér á Ísafirði seldar víða um heim. Fyrirtækið hefur einnig starfsemi í Reykjavík, Zurich og í Arlington í Bandaríkjunum og eru starfsmenn þess á annað hundrað talsins. 

Ólafur Ragnar er fæddur hér á Ísafirði ‎14. maí 1943 og festi nýverið kaup á sínu gamla æskuheimili að Túngötu 3, sem nefnt er Grímshús eftir föður Ólafs. Gera má ráð fyrir að sjá megi meira til Ólafs Ragnars og konu hans Dorrit Moussaieff á götum bæjarins í framtíðinni.

DEILA