Málaferli vegna laxeldis: málflutningur í fyrradag

Í fyrradag fór fram málflutningur í máli sem Laxinn Lifi, Ari P. Wendel, Víðir Hólm Guðbjartsson, Atli Árdal Ólafsson, Náttúruverndarsamtök Íslands, Akurholt ehf., Geiteyri ehf., Veiðifélagið Laxá á Ásum og Varpland hf. höfðuðu á hendur Arctic Sea Farm og Fjarðarlaxi til ógildingar á bráðabirgðaleyfinu sem fyrirtækin fengu eftir að úrskurðarnefndin um umhverfis- og auðlindamál ógilti bæði starfs- og rekstrarleyfi fyrirtækjanna í Patreksfirði og Tálknafirði.

Þetta eru sömu aðilar og kærðu til úrskurðarnefndarinnar og fengu leyfin felld úr gildi. Krafa þeirra er að  bráðabirgðaleyfin verði líka felld úr gildi. Verði það niðurstaðan er sjálfhætt laxeldinu á þessum stöðum og líklega verður að að aflífa laxinn þar með.

Eyrún Viktorsdóttir, lögfræðingur Arctic Sea Farm segir  að  dómarinn hafi gefið góð fyrirheit um niðurstöðu innan tveggja vikna. Þá taldi hún líklegt að útgáfa leyfanna í gær til Arctic Sea fram myndi hafa áhrif á framvindu málsins, því jafnframt hefði bráðabirgðaleyfið verið fellt úr gildi.

Þegar bráðabirgðaleyfið er ekki lengur í gildi er vandséð að stefnendur eigi hagsmuni af úrlausn dómkröfunnar  og þá er eðlilegast að dómari vísi því málinu frá.

 

DEILA