Laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði: leyfin fengin aftur eftir 11 mánuði

Í gær, réttum 11 mánuðum eftir að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi úr gildi bæði rekstrar- og starfsleyfi Arctic Sea Farm fyrir 6.800 tonna framleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði, fékk fyrirtækið bæði leyfin að nýju. Matvælastofnun veitti rekstrarleyfi til fjögurra ára og Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi til 16 ára.

Í millitíðinni hefur starfsemi fyrirtækisins svo og Arnarlax sem einnig missti sín leyfi fyrir 10.700 tonna framleiðslu í sömu úrskurðum verið í töluverðri óvissu. Sett voru sérstök lög á Alþingi til þess að heimila veitingu leyfa til bráðabirgða á meðan fyrirtækin bættu úr þeim vanköntum sem úrskurðarnefndin taldi vera á umhverfismatinu.

Hafði nefndin sett hornin í það að í matsskýrslunni væri ekki gerð grein fyrir öðrum valkostum til laxeldis en sjokvíaeldi og taldi það andstætt lögum og felldi af þeim sökum leyfin úr gildi.

Búist er við að Arnarlax fái sín leyfi afhent næstu daga og þá verður þessu máli loksins lokið.

Breyttur leyfistími og ný skilyrði

Í millitíðinni er búið að samþykkja ný lög um fiskeldi og þau hafa áhrif á leyfin og þau skilyrði sem sett eru. Sett eru nú skilyrði um ljósastýringu frá 20. sept. til 20. mars til að vega upp skort á dagsbirtu, möskvar skulu ekki vera stærri en 18 mm þar til seiðin eru orðin 1 kg að meðaltali og stærð seiða við útsetningu skal vera a.m.k. 56 gr. Eyrún Viktorsóttir, lögfræðingur hjá Arctic Sea Farm segir að þetta  séu vissulega auknar kröfur á fyrirtækin en hafi líka sína kosti.

Gildistími rekstrarleyfis Arctic Sea Farm styttist úr 10 árum í fjögur ár. Er það vegna ákvæða í lögunum sem kveður á um að ef framleiðslumagnið er innan við 40% af burðarþoli svæðisins sé gildistíminn ekki lengri en fjögur ár. Þetta ákvæði var í eldri lögum en var ekki framfylgt en Matvælastofnun fylgir lagabókstafnum að þessu sinni. Það hefur það í för með sér vegna ákvæða í nýju lögunum  að þegar leyfistíminn rennur út 2023 geta aðrir aðilar sótt um þetta svæði. Fyrir vikið verður fjárfestingin að borga sig upp á styttri tíma en áður var.

Arctic Sea Farm fær leyfi fyrir 7800 tonna lífmassa sem er 39% af burðarþolsmatinu sem er 20.000 tonn og því undir 40% markinu í lögunum.

Á síðustu stundu

Leyfin komu alveg á síðustu stundu fyrir Arctic Sea Farm. Fyrirtækið áformar að setja út seiði á nýju svæði og innan skamms er það orðið of seint og verður þá að bíða næsta árs. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta stóð einkum á Umhverfisstofnun að skila sínu starfsleyfi. Stofnunin hafði allra síðasta frest til þess að skila sinni umsögn þann 2. ágúst til Matvælastofnunar en það var ekki fyrr en í gær, þremur vikum síðar , sem það loksins kom og þá fyrst gat Matvælastofnun gefið út sitt rekstrarleyfi.

Kærendur lögðust gegn

Í leyfisferlinu höfðu kærendur málsins til úrskurðarnefndarinnar  tækifæri til þess að koma að sínu sjónarmiði og nýttu þeir sér það.

Það voru Landssamband veiðifélaga og Óttar Yngvason f.h. Náttúruverndarsamtaka Íslands, Náttúruverndarfélagsins Laxinn lifi, Akurholts ehf., Geiteyrar ehf., Ara P. Wendel, Víðis Hólm Guðbjartssonar, Atla Á. Ólafssonar, Varplands ehf. og Veiðifélags Laxár á Ásum. Lögðust þeir gegn leyfisveitingu og gerðu athugasemdir við bæði form og efni í mörgum atriðum.

 

 

DEILA