Hornsílið rannsakað af krökkum á sumarnámskeiði í Bolungarvík

Hressir krakkar hafa gert víðreist í kringum Bolungarvík síðustu daga. Taka þau þátt í sumarnámskeiði á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Markmiðið með námskeiðinu er að gefa grunnskólanemum innsýn inn í vísindarannsóknir á lífríki sjávar og nýtingu þess.

Á námskeiðinu hafa þátttakendur fengið innsýn og prufað sig áfram með fjölbreyttar rannsóknir. Þau hafa kortlagt búsvæði fiska, gert botnmælingar í sjó, lagt hornsílagildrur og veitt með strandnót svo dæmi séu nefnd. Þátttakendur hafa t.d. rannsakað hornsílið, en hann er einn mesti rannsakaði fiskur í heimi. Krakkarnir hafa veitt og merkt hornsíli og gert tilraun til að meta hvað þeir eru margir. Þá hafa þau skoðað kvarnir (eyrnabein) hornsíla í smásjám til að meta hvað fiskarnir eru gamlir, pælt í vexti þeirra og veiðistofnum. Loks hafa þau gert tilraunir með mismunandi veiðarfærum á rannsóknastofu í því markmiði að kanna hvaða áhrif veiðar geta haft á hinu ýmslu eiginleika fiskistofna. Í dag sem er síðasti dagurinn munu þau kynnast því hvernig fiskveiðar og aðrar sjávarnytjar þróuðust á Vestfjörðum frá landnámi og að nútíma. Munu þau skoða verstöðvar og hvalveiðistöðvar ásamt því að skoða fiskibein og hvalbein úr fornleifarannsóknum.

Aðspurð segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum, að krakkarnir standi sig vel og séu afar áhugasöm um lífríki sjávar. Þau veigri sér ekki við að vaða, veiða og prufa rannsóknatæki vísindamanna setursins hvort sem er innandyra eða utan.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum var sett á fót 2007. Rannsóknir setursins eru bæði á sviði fiskilíffræði og fornleifafræði og sérstök áhersla er þar á rannsóknir á haf- og strandsvæðum.

DEILA