Fyrsti gesturinn mættur á gönguhátíð í Súðavík

Eins og flestum er kunnugt verður fimmta gönguhátíðin í Súðavík sett á morgun, föstudag. Setningarathöfnin fer fram við Lambárgil í botni Hestfjarðar og verður um kl. 18. Í dag vakti athygli að fyrirferðamikill gestur var mættur í Hestfjarðarbotn og vakti mikla athygli vegfarenda. Það var hnúfubakur sem stundaði þar veiðar og lék listir sínar.

Dagskrá gönguhátíðar er annars fjölbreytt og skiptist í gönguferðir af ýmsu tagi og skemmtanir á kvöldin. Öll dagskráin er á vef Súðavíkur: http://sudavik.is/frettir/Gonguhatid_i_Sudavik/

Miðstöð gönguhátíðarinnar er í Jóni Indíafara í Grundarstræti og þar verður opið að mestu leyti alla helgina og hægt að kaupa armband, fá hafragraut og kaffi og fá upplýsingar.

Hafið samband við Einar Skúlason GSM 663-2113 til að fá nánari upplýsingar.

Hér má annar sjá dagskrá fyrstu tvo dagana:

Föstudagur 2. ágúst

Kl. 17  Fjölskylduganga að Lambárgili í Hestfirði

Keyrt frá Jóni Indíafara í Súðavík kl. 17 og bílum lagt í botni Hestfjarðar. Gangan hefst líklegast kl. 17:40. Gengið verður gengið inn að Lambárgili þar sem eru gríðarlega fallegir fossar. Gangan er við flestra hæfi. Vegalengd ca 2 km, hækkun takmörkuð og gangan tekur klukkutíma. Barði Ingibjartsson leiðsegir. Stefnt er á að vera með léttar veitingar í gilinu.

Kl. 21:00 Brenna við kirkjuna með sykurpúðum og samsöng

Skammt frá kirkjunni verður flott brenna! Takið með sykurpúða, söngröddina og góða skapið. Á eftir verður hist á Jóni Indíafara í létta stemningu þar sem fólk getur valið göngufélaga.

Laugardagur 3. ágúst

08:00-10:00 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti og kynning á göngum dagsins

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Hist verður á Jóni Indíafara. Grauturinn er í boði fyrir fólk með armband en kostar annars kr. 500, einnig er kaffi á könnunni og te í boði. Um kl. 8:30 verður fjallað um göngur dagsins.

09:00 Vatnshlíðarfjall í Álftarfirði (þrír skór)

Gengið verður á Vatnshlíðarfjall sem er í botni Álftafjarðar með Hattardal og Seljadal á hvora hönd. Magnað útsýni yfir Álftafjörðinn. Fólk kemur saman við Jón Indíafara í Súðavík kl. 9 og sameinast í bíla í botn Álftafjarðar. Farið er hæst í 650 m hæð yfir sjávarmáli og gangan tekur ca sex tíma. Fararstjóri Anna Lind Ragnarsdóttir.

09:00 Í fótspor Harry Eddom (tveir skór)

Í febrúar árið 1968 gekk aftakaveður yfir Vestfirði og á tveimur dögum fórust 25 manns af tveimur togurum og einum báti. Harry Eddom var sá eini sem bjargaðist af breska togaranum Ross Cleveland og náði að komast í land við Seyðisfjörð í Djúpinu og ganga inn í botn fjarðarins í brunagaddi þar sem hann fannst. Í göngunni verður byrjað á því að ganga út að Hestfjalli og svo niður að sjó þar sem Eddom kom að landi og svo er gengið í fótspor hans inn í fjarðarbotninn þar sem hann fannst fyrir tilviljun eftir að allir höfðu talið hann af. Fólk kemur saman við Jón Indíafara í Súðavík kl. 9 og sameinast í bíla í botn Seyðisfjarðar. Farið er hæst í 250 m hæð yfir sjávarmáli og gangan tekur ca fjóra tíma. Fararstjóri Barði Ingibjartsson.

Kl. 17 Síðdegisganga um þorpið – einn skór

Fjallað um þætti úr sögu Súðavíkur m.a. fyrstu hvalveiðistöðina á Íslandi á Langeyri, svæðið þar sem snjóflóðið féll 16. janúar 1995, Raggagarð og fleira.

Leiðsögumaður: Steinn Ingi Kjartansson

Hist við við Jón Indíafara í Súðavík kl.17:00

Kl. 20:00 Sameiginlegt grill í Raggagarði

Grillin verða orðin heit kl. 20 og hægt að koma með eigið kjöt á grillið eða kaupa grillaðar pylsur á vægu verði. Pappadiskar og hnífapör verða á staðnum. Spiluð verður létt tónlist.

Raggagarði hefur verið líkt við risastóra leikskólalóð þar sem hægt er að gleyma sér í fjölbreyttum leiktækjum, rennibrautum og rólum. Ef veður er ekki nógu gott verður hið sameiginlega grill flutt niður að Samkomuhúsi og þar verður kynt upp í tunnugrillinu og þá geta gestir borðað innandyra.

Kl. 22 Dansleikur í Samkomuhúsinu í Súðavík

Fjörugt ball í framhaldi af grillinu þar sem dansað verður inn í nóttina. Gestir koma með drykkina með sér. Ókeypis fyrir þá sem eru með gönguarmband en kostar annars kr. 1500.

DEILA