Flatey skilgreind sem verndarsvæði í byggð

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Tryggi Harðarson sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Þorpið í Flatey hefur nú verið skilgreint sem verndarsvæði í byggð. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti þá ákvörðun, að fenginni tillögu Reykhólahrepps og umsögn Minjastofnunar Íslands, í heimsókn sinni þangað um liðna helgi. Markmið með slíkri ákvörðun er að stuðla að verndun sögulegrar byggðar. Um er að ræða þorpið sjálft, mýrar, strönd og svæði umhverfis Flateyjarkirkju.

Í tillögu Reykhólahrepps kemur meðal annars fram að byggð í Flatey beri vitni um ríka virðingu fyrir menningarverðmætum og lífríki og að vandað sé til viðhalds húsa, minja og landslags út frá varðveislugildi en um leið leitast við að styðja við samfélag eyjarinnar. Unnið verði að því að vernda og styrkja svipmót byggðarinnar og viðhalda byggingarlistarlegu og menningarsögulegu gildi hennar, ásamt samspili við einstaka náttúru og landslag.

,,Byggðin í Flatey er merkileg fyrir ýmsar sakir. Með verndarsvæðinu er stuðlað að verndun og viðhaldi einstakra húsa sem hér eru sem og þorpsins í heild, ásamt því að tryggja vernd einstakrar náttúru og landslags. Ég óska samfélaginu í Flatey til hamingju með þennan áfanga,’’ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

DEILA