Bæjarráð Ísafjarðarbæjar vill lægra verð í flugi

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi fækkun flugferða til Ísafjarðar á fundi sínum á þriðjudaginn. Iceland Air Connect  hefur tilkynnt um fækkun flugferða næsta vetur í eina ferð á þriðjudögum og miðvikudögum.

Hadís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs sagði í samtali við Bæjarins besta að vandinn væri of hátt verð fyrir flugið sem gerði það að verkum að farþegum fækkar. Hún lagði áherslu á að flugið væri nauðsynlegt vegna þess að sérhæfð þjónusta er byggð upp á Höfuðborgarsvæðinu og þangað yrðu íbúar að sækja hana.

Bæjarráð gerði eftirfarandi samþykkt þar sem lögð er áhersla á lækkun fargjalda skv. skosku leiðinni:

„Í ljósi frétta um fækkun ferða flugfélagsins Air Iceland Connect til Ísafjarðar hvetur bæjarráð Ísafjarðarbæjar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármálaráðherra til að tryggja svokallaða skosku leið sem er niðurgreiðsla á flugfargjöldum fyrir fólk sem býr fjarri höfuðborginni. Góðar flugsamgöngur eru nauðsynlegar til að tryggja aðgang íbúa landsbyggðarinnar að nauðsynlegri og sérhæfðri þjónustu sem er aðeins í boði á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt eru þær mikilvægar fyrir atvinnulífið okkar sem nú er í örum vexti. Flugfargjöld hafa hækkað sl. ár með þeim afleiðingum að farþegum hefur fækkað, sem veldur því að dregið er úr flugferðum til Ísafjarðar og Egilsstaða. Verði skoska leiðin innleidd sem fyrst eru allar líkur á því að farþegum muni fjölga á ný og það náist samlegðaráhrif sem nýtist öllum.“

DEILA