Vestfirskur húmor: „Þú ættir frekar að spyrja manninn minn!“

Frú Ágústa Ágústsdóttir og séra Gunnar Björnsson á tröppum Flateyrarkirkju í júní 1992. Ljósm. Björn Ingi Bjarnason.

Í tilefni af 25 ára afmæli Vestfirska forlagsins á þessu ári og blíðunnar dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, er ekki úr vegi að gægjast aðeins í hinn mikla sagnabanka forlagsins við yzta haf.
Hér kemur ein úr þeim banka mönnum til upplyftingar. Sýnir hún glögglega hvað Vestfirðingar eru miklir húmoristar!

Séra Gunnar Björnsson, fyrrum sóknarprestur í Holti í Önundarfirði, er einn af þeim mönnum sem er margt til lista lagt. Margir segja að hann sé eins og hvert annað séní. Nú var það hér á árunum, að fjölmiðlar voru að fjalla um þau hjónakornin í Holti af vissum ástæðum.
Svo var það að einn góður blaðamaður hringdi í Holt. Frú Ágústa Ágústsdóttir, eiginkona Gunnars prests, varð fyrir svörum.

„Hvernig er að vera í hjónabandi með séníi, spurði blaðamaðurinn.“

„Ég get nú lítið sagt um það, svaraði frú Ágústa. Þú ættir nú frekar að spyrja manninn minn að því.“

(Af Þingeyrarvefnum)

DEILA