Þingeyringur fer á heimsmeistaramót í skotfimi

Þingeyringurinn Jóhannes Frank fer síðar í vikunni, fyrstur Íslendinga,  á heimsmeistarmót í skotfimi sem haldið verður í Calgary í Kanada. Fyrir tilstuðlan Jóhannesar er Skotíþróttasamband Íslands orðinn aðili að alþjóðlegum samtökum, World Benchrest Shooting Federation. Um er að ræða tiltekna gerð skotfimi, það er með langdrægum riffli sem hvílir á palli og skotmaðurinn er sitjandi.

Keppnin fer fram frá 14. til 21. júlí og tekur Jóhannes þátt í tveimur þyngdarflokkum riffla. Skotið er fimm skotum í hvert sinn að loknu prufuskoti og felst þrautin í því að hitta í skotunum fimm sem næst gatinu sem prufuskotið gerir helst alveg á sama stað. Skotið er fyrst af 100 metra færi og svo 200 metra færi.

Heimsmeistaramótið fer fram annað hvert ár og eru að þessu sinni 75 keppendur frá 17 löndum. Keppt er bæði í einstaklingsgreinum og liðakeppni.

Jóhannes sagði í samtali við Bæjarins besta að hann hafi á yngri árum á Þingeyri vanist byssunotkun og skotið bæði sel og fugl en væri alveg hættur því núorðið og einbeitti sér að skotfimi. Hann sagði að þetta væri krefjandi íþrótt og  sem dæmi nefndi hann að menn steyptu kúlurnar og smíðuðu byssurnar sjálfir og þetta væri mikil nákvæmnisvinna. Það þyrfti hverju sinni að vega og meta hvað hleðslurnar þyrftu að vera miklar og taka mið af fjarlægð, vindi o.s.frv.

Jóhannes sagðist myndu taka þátt í 5 daga keppni með tveimur misþungum rifflum, en hann myndi bara fara með einn riffil út og sleppa því að hafa með sér þyngri riffilinn. Það væri honum í óhag að vera bara með léttari gerðina og því fengi hann að keppa með hann í þyngri flokknum líka. Ástæðan væri einfaldlega kostnaðurinn.

DEILA