Styrkveitingar í Árneshreppi

Styrkþegarnir. Mynd: Skúli Gautason.

Í gær var úthlutað styrkjum til ellefu verkefna í Árneshreppi. Styrkina veitir Áfram Árneshreppur! sem er heiti sem heimamenn völdu á átakið Brothættar byggðir í sveitarfélaginu.

Heildarupphæð styrkfjár verkefnisins fyrir árið 2019: 7.000.000 kr. auk 1.000.000 kr. sem eftir voru frá fyrra ári, samtals kr. 8.000.000.
Alls bárust tólf umsóknir og var ákveðið að veita ellefu þeirra styrkvilyrði.

Verkefnin eru:

Sleðaferðir á Ströndum 700.000 kr.

Umsækjandi er Hótel Djúpavík. Verkefnið snýst um að efla ferðaþjónustu tengda vélsleðaferðum, en fyrirtækið hefur boðið upp á þær síðan 2016. Styrkurinn nýtist til að styrkja innviði verkefnisins með gerð upplýsingaefnis og kaupa á öryggisbúnaði,
endurnýjun staðsetningar- og samskiptatækja, hjálma, hjálmljósa og flutningskerra aftan í
snjósleða.

Standsetning verslunarhúsnæðis 750.000 kr

Umsækjandi er Verzlunarfjelags Árneshrepps ehf. sem rekur matvöruverslun í Norðurfirði. Verslunin var stofnuð vorið 2019 af íbúum hreppsins og velunnurum. Hluthafar eru 138 talins. Sótt er um styrk til að standa straum af kostnaði við að koma verzluninni af stað, m.a. málningar- og hreinlætisvörum, hönnun auðkennismerkis, kassakerfi og öðrum búnaði tengdum verzlunarrekstri.

The Factory 250.000 kr

Umsækjandi er Emilie Dalum. The Factory er myndlistarsýning í gömlu verksmiðjuhúsnæði í
Djúpavík. Umsækjandi hefur staðið fyrir sambærilegum verkefnum undanfarin tvö ár og
hafa þær tekist vel og fengið góða aðsókn. Aðgangur er ókeypis.

Krossneslaug, aðstaða 700.000 kr.

Umsækjandi er Ungmennafélagið Leifur heppni. Krossneslaug er sundlaug í Norðurfirði sem vígð var árið 1954. Sótt er um styrk fyrir hönnun nýrra búningsklefa og aðstöðu fyrir umsjónamann við Krossneslaug. Aðstaða fyrir gesti er orðin ansi lúin og umsjónarmaður hefst við í bráðabirgðaaðstöðu, tjaldi við hlið búningsklefa.

Þjóðmenningarskólinn 700.000 kr.

Umsækjandi er Elín Agla Briem. Þjóðmenningarskólinn hlaut styrk í fyrra til að kaupa mongólskt tjald frá Kanada sem er komið norður í Árneshrepp. Sótt er um styrk til að reisa pall undir tjaldið í Nátthaganum á Seljanesi, vinna heimasíðu og gera lógó.

Hjólað í Djúpavík 500.000 kr.

Umsækjandi er Hótel Djúpavík. Í verkefninu felst að kaupa allt að 5 fjallahjól ásamt öryggisbúnaði Verkefnið er bæði atvinnuskapandi, styður við heilsársstarfsemi og eykur fjölbreytni í afþreyingu.

Sveitaskólinn 300.000 kr.

Umsækjandi er Elín Agla Briem. Hugmyndafræði og starf Sveitaskólans í Árneshreppi miðar að því að kynna sveitina fyrir ungmennum, styrkja tengsl þeirra sem tengjast sveitinni en líka að bjóða fleirum að koma og kynnast sveitinni. Áhersla er lögð á menningu, sögu og verkmenningu er tengjast bústörfum, sjómennsku og matvælagerð.
Sótt er um styrk til að vinna að námskeiði næsta haust sem og fyrir undirbúning annarra námskeiða og frekari styrkumsókna.

Frisbígolf 1.200.000 kr.

Umsækjandi er Urðartindur. Frisbígolf er keppnisíþrótt sem er mjög skemmtileg, hentar bæði fyrir börn og fullorðna, hægt að stunda í flestum veðrum og getur verið krefjandi og góð útivist. Sótt er um styrk til kaupa á búnaði, auk hönnunar og uppsetningar á frisbígolfvelli.

Markaðssetning ferðaþjónustu í Árneshreppi 1.300.000 kr.

Umsækjandi er Arinbjörn Bernharðsson. Verkefnið er til tveggja ára og snýst um að greina möguleika í ferðaþjónustu í Árneshreppi og vinna kynningarefni í framhaldinu.

Hlaðvarp 120.000 kr.

Umsækjandi er Sigurrós Elddís Huldudóttir. Markmið verkefnisins er að gera hlaðvarpsþætti á Vestfjörðum. Umsækjandi er ættuð úr Árneshreppi og vill leggja sérstaka rækt við hann.
Styrkurinn er til tækjakaupa.

Aðstaða fyrir ferðamenn 1.480.000 kr.

Umsækjandi er Strandferðir ehf. Verkefnið gengur út á að setja upp smáhýsi í Norðurfirði sem aðstöðu fyrir ferðamenn ásamt bekk og borði til að geta tyllt sér niður. Styrkurinn er til kaupa á byggingarefni og uppsetningu.

 

DEILA