Reykhólahreppur: 89 milljóna króna verri afkoma

Reykhólar. Mynd: Ása Björg Stefánsdóttir.

Rekstrarafkoma Reykhólahrepps, A og B hluta, versnaði um nærri 90 milljónir króna á árinu 2018 frá fyrra ári. Það jafngildir um 26% af tekjum sveitarfélagsins af útsvari, fasteignagjöldum og framlagi úr Jöfnunarsjóði. Fátítt er sjá svo miklar breytingar í afkomu sveitarfélaga. Þetta kemru fram í ársreikningi fyrir Reykhólahrepp 2018.

Tekjur A hluta sveitarfélagsins lækkuðu úr 455 milljónum króna niður í 431 milljónir króna. Þegar B hlutinn, Barmahlíð, fráveitur, vatnsveita og leigíbúðir, er tekinn saman með A hlutanum fæst að tekjurnar lækkuðu um 20 milljónir króna frá 2017. Lækkunin var vegna lægra framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 10 mkr og annarra tekna 10 mkr.

Útgjöldin urðu 38 milljónum króna hærri í A hlutanum og 20 mkr B hlutanum. Alls urðu rekstrarútgjöldin 58 milljónum króna hærri 2018 en þau voru 2017.

Rekstrarniðurstaðan að teknu tilliti til fjármagns og óreglulegra liða fyrir A og B hluta samanlagt versnaði um 89 milljónir króna milli ára. Niðurstaðan var 2017 jákvæð um 69 milljónir króna en varð neikvæð um 20 milljónir króna á síðasta ári.

Fyrst og fremst er breytingin vegna hækkandi útgjalda. Launagjöld hækka um 30 milljónir króna milli ára og önnur rekstrarútgjöld um 28 milljónir króna.

Sérfræðikostnaður 40 mkr

Athygli vekur að sérfræðikostnaður 2018 er 40 milljónir króna og var sami liður 28 milljónir króna árið áður. Ekki kemur fram nánar hvað þetta er en líklega er hér um að ræða kostnað vegna veglínu Vestfjarðavegar 60 um Gufudalssveit.

 

DEILA