Mótmæla þremur virkjunum á Vestfjörðum

Kort sem fylgir með yfirlýsingu landeigandna.

Hópur landeigenda í Árneshreppi, alls 30 manns, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem mótmælt er „því að Drangajökulsvíðernum verði raskað til frambúðar fyrir vatnsaflsvirkjanir orkufyrirtækja. Andmælin beinast gegn áformum HS Orku og Landsvirkjunar um byggingu þriggja virkjana í óspilltum víðernunum.“

Um er að ræða áform um Hvalárvirkjun, Austurgilsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun samkvæmt því sem fram kemur í yfirlýsingunni.

tímaskekkja, úreltar forsendur

Í yfirlýsingunni segir eftirfarandi:

„Þessar stórkarlalegu virkjanahugmyndirnar eru fullkomin tímaskekkja í nútímasamfélagi. Náttúruverndarsjónarmið njóta sífellt meira fylgis og óbyggð víðerni hafa öðlast viðurkenningu og vernd í lögum. Þessar virkjanahugmyndirnar eiga því að okkar mati heima í verndar- eða biðflokki rammaáætlunar, áratugsgamlar forsendur þeirra eru löngu úreltar. Allir sem kynna sér staðreyndir um raforkuöryggi á Vestfjörðum vita að þessar virkjanir hafa þar engin áhrif. Raforkan yrði seld hæstbjóðanda suður á land, líklega til gagnavera sem leita rafmyntar, s.s Bitcoin. Sú stórfellda eyðilegging á einstakri náttúru sem svona stórframkvæmdum fylgja mun ekki bjarga heilsárbyggð í Árneshreppi, en stórskaða ímynd sveitarinnar.“

Loks segir að yfirlýsingin sé ákall til stjórnmálamanna um að hlusta á þá sem næst standa þessari vá og vilja huga að framtíðinni.

Undir yfirlýsinguna ritar fyrirhönd hópsins Lára Ingólfsdóttir,  einn landeiganda í Drangavík og á Eyri.

DEILA