Mikið fjör á Náttúrubarnahátíð um helgina -300 manns

Fjöldi fólks tók þátt í sjósundinu.

Náttúrubarnahátíð á Ströndum var haldin helgina 19.-21. júlí á Sauðfjársetrinu í Sævangi rétt utan við Hólmavík. Metaðsókn var að hátíðinni í ár en þetta er í þriðja skipti sem hún er haldin. Það er Náttúrubarnaskólinn sem stendur fyrir hátíðinni en hann hefur verið starfræktur síðan sumarið 2015. Náttúrubarnaskólinn stendur fyrir fjölbreyttum námskeiðum yfir sumartímann sem miða að því að fræða börn á öllum aldri um ólíkar hliðar náttúrunnar.

Strandahestar voru á staðnum og hægt að skella sér á hestbak.

Hátíðin er í anda skólans og einkennist af útivist og náttúruskoðun. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur er skipuleggjandi Náttúrubarnahátíðarinnar og er hæst ánægð með helgina. „Þetta gekk bara eins og í sögu. Veðrið var æðislegt, mætingin var mjög góð og skemmtiatriðin frábær,“ segir Dagrún, en hún áætlar að rúmlega 300 manns hafi sótt hátíðina í ár.

Það var vel mætt á spjallið með Stjörnu-Sævari.

Náttúrubarnahátíðin myndi seint teljast venjuleg hátíð „Þetta er auðvitað mjög óhefðbundin útihátíð, á Náttúrubarnahátíðinni snýst allt um að vera úti í náttúrunni og fræðast um hana og dagskráin miðar að því að börn og fullorðnir geti leikið sér saman og skapað skemmtilegar minningar, það er það mikilvægasta,“ segir Dagrún. „Ég trúi því að þegar fólk þekkir náttúruna betur fari það að bera meiri virðingu fyrir henni og þar af leiðandi gangi betur um hana,“ bætir Dagrún við.

Það var vel mætt á Náttúrubarnahátíðina.

Dagskráin var fjölbreytt en á henni var til dæmis að finna sjósund, fuglaskoðun og fjöruplokk, þar voru tónleikar, sirkus, náttúrusmiðjur þar sem hægt var að fræðast um nýtingu jurta, leikhús, töfrasýning, tilraunasmiðja, náttúrujóga, vísindaport og spjall með Stjörnu-Sævari. „Spjallið með Stjörnu-Sævari var mjög vel sótt, líka vísindaportið þar sem hægt var að kynnast allskonar rannsóknum og listsköpun sem tengist náttúrunni. Þegar maður er úti í náttúrunni má maður líka alltaf búast við einhverju óvæntu og það var mjög gaman þegar hvalir sem voru að leika sér á firðinum stálu athyglinni í smá stund á úti tónleikunum með Jónsa í svörtum fötum á laugardagskvöldinu. Annars var þetta allt ótrúlega skemmtilegt,“ segir Dagrún.

 

Náttúrubarnaskólinn hefur þó ekki lokið störfum í sumar og er ýmislegt fleira á döfinni. „Við eigum eftir að halda tvö námskeið á Ströndum í sumar og svo erum við að fara með Náttúrubarnaskólann á Byggðasafnið á Hnjóti og Act alone hátíðina á Suðureyri líka. Það verður gaman að prufa að fara eitthvað annað með skólann,“ segir Dagrún að lokum, en hægt er kynna sér Náttúrubarnaskólann á Facebook eða hjá Dagrúnu í síma 661-2213.

Arfisti bakaði njólasnúða með blóðbergspestó.
Gaman í sjósundi, Dagrún Ósk og Rakel Ýr eru í forgrunni myndarinnar.

 

DEILA