Ísafjörður: Hækkun fasteignaskatts frá 2013 er 31 -45%

Verðlagseftirlit ASÍ hefur birt niðurstöður á viðamikilli könnun um fasteignagjöld í 15 sveitarfélögum og hækkun þeirra frá 2013 til 2019. Könnunin nær til 15 fjölmennustu sveitarfélaga landsins. Ísafjarðarbær er eina vestfirska sveitarfélagið í könnuninni og er tekið fasteignamat íbúða í eldri byggð á ísafirði í könnuninni. Alls eru teknar 21 mælingar í þessum 15 sveitarfélögum og er það vegna þess að í 6 fjölmennustu sveitarfélögunum eru athugaðar breytingar á tveimur stöðum í viðkomandi sveitarfélagi.

Fasteignaskattur – hæst % á Ísafirði

Álagningarhlutfall fasteignaskatts hefur lækkað í 9 sveitarfélögum, staðið í stað í þremur, þar á meðal Ísafirði og hækkað í tveimur sveitarfélögum. Hjá fimm sveitarfélögum hefur lækkunin á álagningarhlutfallinu verið meira en 20% og er mest í Garðabæ 27%.

Hæst er hlutfallið á Ísafirði og er það 0,63% af fasteignamatinu og hefur verið óbreytt á þessum  þessum 7 árum. Lægst er álagningarhlutfallið í Reykjavík og á Seltjarnarnesi 0,18% og þá kemur Garðabær með 0,19%.

sérbýli

Skoðaður er álagður fasteignaskattur annars vegar á sérbýli og hins vegar á fjölbýli.

Í sérbýlinu hefur fasteignaskatturinn hækkað  á Ísafirði í eldri byggð um 45,2% frá 2013 til 2019. Þar er Ísafjörður í 6. sæti af 15. Hækkunin hefur verið meiri í 5 sveitarfélögum Reykjanesbæ, Reykjavík, Selfoss, Fjarðabyggð og Sauðárkróki og minni hækkun í 9 sveitarfélögum. Hækkunin á Ísafirði kom einkum fram á árinu 2017 þegar hún var 19% og aftur nærri 19% á þessu ári. Hækkunin varð mest í Keflavík 134% og svo á Reyðarfirði 72%. Minnst hækkun varð 9% í vestmannaeyjum.

fjölbýli

Varðandi fjölbýli er hækkunin á Ísafirði á þessu tímabili 30,9%. Hækkunin varð meiri í 11 sveitarfélögum og minni í þremur þeirra. Það eru Vestmannaeyjar, Garðabær og Mosfellsbær. Mest varð hækkunin í Keflavík 136% og svo 66% í Reykjavík, Laugarneshverfi. Minnst hækkun varð í Vestmannaeyjum 13%.

lóðarleiga

Verðlagseftirlit ASÍ athugaði líka breytingar á lóðarleigu. Lóðaleiga hækkaði mikið á tímabilinu hjá flestum sveitarfélögum en þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á lóðamati má sjá að innheimt lóðaleiga hækkar í flestum tilfellum yfir 50% eða í 14 tilvikum af 21.

Á Ísafirði hækkaði lóðarleigan um 37%. Mest varð hækkunin í Keflavík 122% og minnst í Kópavogi 10%. Á Akranesi lækkaði lóðareligan um 33%.

 

 

DEILA