Ísafjarðarbær: Olís bætir þjónustu við smábáta

Afstöðumynd frá Þingeyri.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur jákvætt í erindi frá Olís sem vill setja upp  bryggjudælur á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Guðmundur Magnús Kristjánsson, hafnarstjóri segir að þetta sé bætt þjónusta við smábáta. Önnur olíufélög veiti sömu þjónustu og þetta þýðir meiri samkeppni meðal þeirra. Honum var falið að ganga til samninga við Olís.

Á Suðureyri er hugmyndin að setja niður tank milli núverandi tanka og leggja lögn meðfram grjótgarði. Tankurinn er tvöfaldur og verður í honum tankamælingarkerfi. Upp við geymi er segulloki á lögninni sem er lokaður en opnast þegar dælan fer í gang.

Á Flateyri : Í stað núverandi tanks kemur nýr 9900 lítra tankur. Á hann verður sett festing fyrir dælu og slönguhjól. Eins og á Suðureyri verður tankurinn tvöfaldur með tankmælingarkerfi og segulloka.

Á Þingeyri  er hugmyndin að setja niður tank með tankamælingarkerfi og flotbryggju með landgangi. Þá verður segulloki á lögninni upp við geymi.

DEILA