Ingjaldssandur: stórfelld endurheimt votlendis

Ingjaldssandur séð til norðurs. Ástún og Sæból. Mynd: Mats Wibe Lund.

Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðs segir að komin séu leyfi frá öllum landeigendum á Ingjaldssandi fyrir endurheimt votlendis með því að fylla upp í skurði, sem grafnir voru á sínum tíma meðan búskapur var stundaður þar á mörgum jörðum til þess að ræsa fram votlendi.

Búið er að hafa samband við Ísafjarðarbæ sem ákveður hvort veita þurfi framkvæmdaleyfi. Landgræðslan er að meta svæðið og mun gera tillögu um aðgerðir.

Eyþór segir að eftir miklu sé að slægjast á Ingjaldssandi. Þar verði væntanlega hægt að binda 2000 – 3000 tonn af koldíoxíði árlega. Til samanburðar losar einn fólksbíll 1 – 2 tonn á ári.

Það sem gerist að sögn Eyþórs er að gróður bindur koldíoxið við vöxt sem skilað er aftur út í andrúmsloftið þegar gróðurinn fellur að hausti.  Sé gróðurinn í mýrum fellur hann en rotnar ekki og því verður bindingin af koldíoxíðinu áfram í jarðveginum og engin losun.

Sé mýrin ræst fram fer jarðvegurinn að rotna og þá losnar aftur út í andrúmsloftið koldíoxíðið sem bast þegar gróðurinn óx. Langstærstur hluti af losun á Íslandi kemur frá jarðveginum eð um 2/3 allrar koldíoxíðlosunarinnar. Sem dæmi er þessi losum margfalt meiri en vegna stóriðjunnar eað bílaflotans.

Endurheimt votlendisins fer þannig fram að fyllt er aftur í skurðina. Þá stíflast þeir og losun gróðurhúsaloftegundanna stöðvast.

Votlendissjóður selur fyrirtækjum bindinguna sem vilja jafna eigin losun og fær þannig fjármagn til þess að standa undir aðgerðum við endurheimt votlendisins.

DEILA