Húsnæðismarkaðurinn í jafnvægi?

Í nýjum markaðspunktum greiningardeildar Arionbanka segir að verðbólga fari lækkandi. Árshækkunin síðustu 12 mánuði sé 3,1% en var 3,3% í síðasta mánuði. Það er einkum þrennt sem greiningardeildin nefnir því til skýringar.

Í fyrsta lagi að hækkun flugmiða í millilandaflugi hafi orðið mun lægri en hefur verið á þessum tíma árs frá 2013. Það er ekki það sem búist var við og telur greiningardeildin enn rétt að hafa varann á sér og að svo geti farið að fall WOW air muni á endanum leiða til hærra verðs. Önnur ástæða er að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hafi lækkað meira vegna áhrifa frá útsölum en von var á.

húsnæðisverð ýtir ekki lengur undir verðbólgu

Þriðaj ástæðan er að árshækkun á húsnæðisverði er aðeins 3,5% síðustu 12 mánuði  sem er minna en lengi hefur verið.  Segir greiningardeildin að útlit sé fyrir að húsnæðismarkaðurinn sé kominn í ágætis jafnvægi, ef svo má að orði komast. Undanfarna 16 mánuði hefur húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðisins hækkað hraðar en á höfuðborgarsvæðinu en það skýrist helst af húsnæðisverðshækkunum í “Kraganum” eða gróflega skilgreint bæjarfélögum í, um eða innan við klukkustundar akstursfjarlægð frá höfuðborginni.

„Nú hefur hækkunartaktur húsnæðisverðs utan höfuðborgarsvæðisins hins vegar hefur lækkað nokkuð hratt eða úr 10,3% í maí í 4,9% nú í júlí og því virðist verðlagning á staðsetningu vera að komast í betra jafnvægi“ segir í greiningunni og „teljum við að dagar húsnæðisliðarins sem stórstjörnu verðbólguteymisins séu liðnir og framundan séu mjög hóflegar húsnæðisverðshækkanir.“

DEILA